Fréttasafn



19. ágú. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Verk og vit sýningu frestað fram á næsta ár

Vegna samkomutakmarkana sem nú eru í gildi og í ljósi þeirrar þróunar sem seinni bylgja heimsfaraldurs COVID-19 veldur, hefur framkvæmdaraðili sýningarinnar Verk og vit, að höfðu samráði við samstarfsaðila og með tilliti til skilmála sýningarinnar, ákveðið að fresta sýningunni sem halda átti í Laugardalshöll 15.-18. október næstkomandi fram til 15.-18. apríl 2021. 

Í tilkynningu frá framkvæmdaraðila sýningarinnar kemur fram að Verk og vit hafi skipað sér sess sem uppskeruhátíð bygginga- og mannvirkjageirans en á síðustu Verk og vit sýningu 2018 var sett aðsóknarmet en þá sóttu um 25.000 manns sýninguna þar sem yfir hundrað sýnendur kynntu vörur sínar og þjónustu.

Haft er eftir Áslaugu Pálsdóttur, framkvæmdastjóra AP almannatengsla, sem er framkvæmdaaðili sýningarinnar að fagsýning eins og Verk og vit sé mikilvægur vettvangur fyrir byggingariðnaðinn. Sýningin feli í sér tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, að kynna vörur sínar og þjónustu og til að styrkja tengslanetið. Verk og vit hafi þannig skipað sér mikilvægan sess hjá fagaðilum til að hittast og mynda viðskiptasambönd. Áslaug segist sannfærð um að sýningin Verk og vit 2021 muni verða ein sú mikilvægasta hingað til. Með samstilltu átaki og samstarfi verði vörn snúið í sókn. Í vor verði án efa góður tími til að sækja fram, þétta raðirnar og fara yfir verkefnin sem framundan eru.

Meðal sýnenda á Verk og vit eru meðal annars byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög.

AP almannatengsl er framkvæmdaaðili sýningarinnar en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.

Vefsvæði og kynningarefni sýningarinnar hefur verið uppfært miðað við breytta dagsetningu en annað helst óbreytt.