Fréttasafn15. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Verkefni í samgönguáætlun sem henta vel fyrir PPP

Samvinnuleið eða PPP (Public Private Partnership) við innviðauppbyggingu getur flýtt framkvæmdum og krefst minni fjármagnsbindingar af hálfu ríkisins, auk þess er leiðin líklegri til að vera á áætlun í tíma og kostnaði og gæti falið í sér betra viðhald um leið og byggð er upp þekking hér á landi á samvinnuleið. En hafa þarf í huga að á Íslandi er kostnaður við fjármagn mun hærri en í flestum öðrum löndum. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í erindi hans á ráðstefnu Regins og Deloitte í vikunni þar sem fjallað var um ávinning samvinnuleiðar. Sigurður sagði samstarf opinberra aðila og einkaaðila um fjármögnun samgönguframkvæmda henta meðal annars í stórum nýframkvæmdum. Þar gæti verið um að ræða gjaldtöku í tiltekinn tíma sem endar með eignarhaldi ríkisins á innviðunum í lok samningstíma.

Í máli Sigurðar kom fram að á næstunni muni samgönguráðherra kynna nánari umgjörð um samvinnuleið eða PPP en slík leið felur í sér samstarf opinberra aðila og einkaaðila við fjármögnun, byggingu og rekstur mannvirkja. Nú þegar hafa verið nefndir sex kostir sem falla munu undir samvinnuleið í fyrirhuguðu frumvarpi ráðherra. Það eru Axarvegur, Hornafjarðarfljót, Brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut og jarðgöng um Reynisfjall/láglendisvegur um Mýrdal.

Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar frá fundinum.

Reginn_radstefna_harpa_13112019-25