Fréttasafn



27. jan. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Verklegar framkvæmdir 139 milljarðar króna


Áætlaðar verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári eru samtals 139 milljarðar króna samkvæmt því sem fram kemur á Útboðsþingi SI 2021. Þetta er 7,4 milljarði meira en kynnt var á Útboðsþingi SI 2020. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI  um fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári.

Um er að ræða talsverðar framkvæmdir sem ætlað er að efla innviði hagkerfisins. Boðaðar framkvæmdir eru um 4,5% af væntri landsframleiðslu ársins sem er viðlíka og á síðasta ári þegar þær námu 4,6% af landsframleiðslu. Það er jákvætt að verið sé að boða til umfangsmikilla framkvæmda þar sem innviðaframkvæmdir eru fjárfesting í hagvexti framtíðarinnar. Mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðaframkvæmdir víða og henta því framkvæmdirnar vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu.   

Umfangsmestu framkvæmdirnar boða Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR). Reykjavíkurborg fyrirhugar framkvæmdir fyrir 28,6 milljarða króna í ár sem er töluvert meira en í fyrra þegar borgin boðaði framkvæmdir fyrir 19,6 milljarða króna, þar sem verið er að fjárfesta mjög víða með einkaaðilum. Um er að ræða fjölbreytt verkefni fyrir allar tegundir verktaka. Vegagerðin boðar nú framkvæmdir fyrir 27,6 milljarða króna sem er nokkur lækkun frá boðuðum framkvæmdum í fyrra þegar þær námu 38,7 milljörðum króna. Af fjárheimildum stofnunarinnar fyrir árið í ár eru 15,5 milljarðar króna til nýframkvæmda og ríflega 12 milljarðar króna til viðhaldsframkvæmda. Meðal verkefna eru samvinnuverkefni með einkaaðilum, svokölluð PPP verkefni, fyrir um 9 milljarða króna. Framkvæmdasýsla ríkisins áætlar nú framkvæmdir fyrir 22,8 milljarða króna á árinu sem er veruleg aukning frá því í fyrra þegar hún boðaði 9,3 milljarða króna framkvæmdir. Um er að ræða aukningu sem skýrist af fjárfestingarátaki stjórnvalda. Alls eru þetta 91 útboð fjögurra ríkisaðila, þ.e. FSR, Ríkiseigna, Háskóla Íslands og Landspítalans háskólasjúkrahúss.

Tafla-utbodsthing

Hér er hægt að nálgast greiningu SI um verklegar framkvæmdir opinberra aðila á þessu ári.