Fréttasafn



4. feb. 2019 Almennar fréttir Menntun

Verksmiðjan kom til tals í Bakaríinu

Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI, var í viðtali hjá Einari Bárðarsyni og Svavari Erni í þættinum Bakaríið á Bylgjunni síðastliðinn laugardag og ræddi þar meðal annars um Verksmiðjuna. Þar segir hún að nú styttist í að frestur renni út fyrir ungmenni að senda inn sínar hugmyndir en Verksmiðjan er er nýsköpunarkeppni fyrir 13-16 ára ungmenni þar sem allar hugmyndir geta orðið að veruleika. „Þess vegna er ég svo spennt að heyra hugmyndirnar, því krakkarnir eru alveg með puttann á púlsinum, þau eru umhverfisvæn, þau eru að hugsa um hluti sem skipta máli,“ segir Jóhanna Vigdís meðal annars í viðtalinu.

Verksmiðjan hvetur ungt fólk til að taka eftir hugmyndum sínum og umhverfi og finna lausnir á ýmsum vandamálum, stórum sem smáum. Þátttakendum er fylgt eftir og þeir myndaðir af framleiðsluteymi RÚV. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða sýndir á RÚV í vor. Hægt er að fylgjast með ferlinu á vefsvæði Verksmiðjunnar: ungruv.is/verksmiðjan.

En þess má geta að Verksmiðjan er samstarfsverkefni RÚV, Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Fab Lab á Íslandi, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Rafmennt, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Listasafns Reykjavíkur.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Jóhönnu Vigdísi í heild sinni.

Hansa-02-02-2019