Fréttasafn



18. mar. 2019 Almennar fréttir Nýsköpun

Verksmiðjan með tíu hugmyndir

Tíu hugmyndir komust áfram í Verksmiðjunni 2019 sem er nýsköpunarkeppni ungs fólks. Keppendur eru núna að þróa og útfæra hugmyndir sínar í smiðjum Fab Lab á Íslandi og í samstarfi við fyrirtæki í atvinnulífinu. Sigurvegari verður síðann valinn á lokaviðburði Verksmiðjunnar þann 22.maí í Listasafni Reykjavíkur.

Hér fyrir neðan eru hugmyndirnar tíu sem komust áfram: 

Hugmyndin Allt um peninga er síða sem kennir ungu fólki á peninga og fjármál. Unglingar fá enga kennslu í hvernig á að kaupa fasteign eða tryggingar, svo eitthvað sé nefnt. Á síðunni verður boðið upp á fjölbreytt námskeið sem fjalla öll um fjármálalæsi.

Eltivekjarinn er vekjaraklukka á hjólum. Vekjaraklukkan keyrir um herbergið og vekur fólk með látum og það er nauðsynlegt að standa upp og elta klukkuna til að slökkva á henni. Þá er viðkomandi kominn á fætur og getur byrjað daginn.

Markarskráninga-appið er lausnin við aldagömlu vandamáli sauðfjárbænda við að þekkja hin margvíslegu mörk á kindum og lömbum. Appið er forrit sem í gagnagrunni sínum geymir myndir, nöfn og allar þær fjölmörgu mismunandi samsetningar marka og bæjarmerkja. Ef þú lendir í að hafa fundið utanaðkomandi kindur sem ekki hefur bæjarmark í eyra eða mark sem þér er ókunnug er hægt að fletta því upp í forritinu.

Regnhlífalampinn er regnhlíf með ljósi innan í og að utan. Regnhlífin leysir það vandamál að ef það er dimmt úti og rigning á vegfarandinn auðveldara með að sjá hvar hann gengur og bílarnir eiga auðveldara með að sjá hann.

Tal-Stafir hjálpa ungum börnum að læra stafina. Bókstafirnir eru búnir til úr við og inni í þeim eru litlir hátalarar sem segja nafnið á stafnum á 10 sek fresti ef að barnið hreyfir við stafinum. Tal-Stafirnir líta út eins og gamaldags leikföng sem heilla börn og foreldra en með nútíma innihaldi. Börnin geta skoðað stafina og áttað sig á því hvernig þeir eru í laginu.

Tannburstagómurinn burstar í þér tennurnar allar í einu og það tekur aðeins 5-10 sekúndur. Þetta er fullkomin lausn fyrir þá sem nenna ekki að bursta í sér tennurnar. Gómurinn er úr silikon og með rafmagnstannburstahárum. Til að nota góminn setur maður tannkrem í hann, setur upp í munninn og ýtir á takka til að hann bursti tennurnar.

Vape greinir er sérstakt tæki sem svipar til reykskynjara sem nemur gufur frá vapetækjum. Hugmyndin er að tækið verði sett í herbergin hjá ungmönnum, inn á stöðum þar sem það er bannað að reykja, t.d flugvélum, og inn á skólaklósettum.

Teygjó er teygja sem sett er á fótboltaskó og er tengd við app í gegnum bluetooth. Á fótboltaæfingu þarf maður ekki að telja hversu oft maður snertir boltann – appið telur snertingar og mælir árangurinn.

Veljum sjálfbær föt er síða eða app sem gefur manni upplýsingar um hvaða fatamerki eru félagslega ábyrg. Síðan gefur til dæmis upplýsingar um barnaþrælkun, hvort framleiðslan sé umhverfisvæn og hvort fyrirtækið borgi starfsmönnum sanngjörn laun og komi vel fram við það. Hugmyndin eykur samfélagslega ábyrgð hjá fólki.

Ljóslitafilman er þunn filma í glugga með ljósum sem auðvelt er að setja upp. Birtustigi og lit er stjórnað með fjarstýringu eða appi í símanum. Ljósin eru tengd Bluetooth. Þegar slökkt er á ljósunum er glugginn bara eins og venjulegur gluggi. Ljósin er hægt að nota við hinar ýmsu aðstæður, t.d. í partýum eða sem jólaseríur.