Fréttasafn20. des. 2018 Almennar fréttir Menntun

Verksmiðjunni er ætlað að efla nýsköpun

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem hugmyndir og uppfinningar verða að veruleika. Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, RÚV, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Fab Lab, menntamálaráðuneytið og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. 

Með það fyrir augum að slá nokkuð margar flugur í einu höggi kviknaði hugmyndin að Verksmiðjunni sem ætlað er að ná til ungmenna í 8.-10. bekk grunnskóla. Þetta er hugmynda- og uppfinningakeppni þar sem krökkum gefst tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með aðstoð leiðbeinenda, fagfólks, fyrirtækja og hvetjandi sjónvarpsefnis. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða sýndir á RÚV í vor. Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson tekur virkan þátt í Verksmiðjunni og mun þróa hljóðfæri í samstarfi við Fab Lab. Fylgst verður með ferlinu á ungruv.is og einnig í sjónvarpsþáttunum.

Markmið Verksmiðjunnar er að:

  • hvetja ungmenni til að veita hugmyndum sínum og hæfileikum athygli
  • fjalla um iðn- og tæknimenntun á spennandi hátt
  • efla nýsköpun í íslensku samfélagi
  • vera vettvangur fyrir raddir ungs fólks

Þessi markmið fara vel saman við markmið í menntastefnu Samtaka iðnaðarins þar sem stefnt er að fjölgun iðn- og verkmenntaðra á vinnumarkaði m.a. með því að auka veg list- og verkgreina í grunnskólum.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, verkefnastjóra í menntamálum hjá SI, hansa@si.is.