Fréttasafn26. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Verktakar í Hafnarfirði sjá engin verkefni í kortunum næstu árin

Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, stóð fyrir fundi í hádeginu í dag þar sem öllum framboðum til sveitastjórnar í Hafnarfirði var boðið að kynna áherslumál sín í byggingar- og mannvirkjamálum. Fundurinn byrjaði á því að Ágúst Pétursson, formaður MIH, fór yfir talningu SI í sveitafélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom fram að Hafnarfjörður stendur lakast allra sveitarfélaga hvað varðar nýframkvæmdir íbúðabygginga. Samkvæmt talningunni er staðan sú að einungis 150 íbúðir eru í byggingu og verktakar í Hafnarfirði sjá engin verkefni í kortunum næstu árin. Hafnfirskir verktakar eru því farnir að leita til nágrannasveitafélaga eftir verkefnum og kom fram að það hafi ekki átt sér stað áður í Hafnarfirði.

Of strangir deiliskilmálar hamla uppbyggingu í Skarðshlíð

Átta framboð mættu á fundinn og fékk hvert og eitt framboð 10 mínútur. Að kynningum loknum var opnað á fyrirspurnir og spunnust líflegar umræður. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins talaði m.a. um að hugsanlega hafi ekki verið nógu skýrt kveðið á um skipulagsmál í samstarfssáttmála meirihlutans sem nú er við völd. Það hafi hugsanlega leitt til allt of strangra „deiliskilmála“ og kom fram að samkvæmt mati MIH hamlar það uppbyggingu „draugahverfisins“ í Skarðshlíð. Öll framboðin töluðu skýrt um að hér eftir yrði haft samráð við verktaka áður en deiliskipulag og deiliskilmálar verði samþykktir. Á fundinum kom fram að þau loforð hafi heyrst áður en að MIH vonist til þess að nú verði staðið við þau.