Fréttasafn



4. júl. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Verktakar vænta aukningar í fjölda íbúða í byggingu

Nær 13% aukning verður í fjölda íbúða í byggingu á næstu tólf mánuðum samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins í júní síðastliðnum líkt og kemur fram í nýrri greiningu SI. Um er að ræða verulegan viðsnúning frá því sem verið hefur en sambærileg könnun sem gerð var í lok síðastliðins árs benti til 21% samdráttar. Könnunin er gerð á meðal verktaka sem eru að byggja íbúðir í eigin reikning. Hún hefur haft gott forspárgildi fyrir markaðinn en í því sambandi má nefna að talning Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, á íbúðum í byggingu í mars á þessu ári sýndi fram á umtalsverðan samdrátt íbúða í byggingu í samræmi við niðurstöður könnunar SI í lok síðastliðins árs. 

Heildarfjöldi íbúða í byggingu hjá þeim verktökum sem þátt tóku í könnuninni er 2.554. Reikna stjórnendur fyrirtækjanna með því að afhenda af þeim 1.620 íbúðir á næstu tólf mánuðum og hefja byggingu á 1.943 íbúðum á þeim tíma. Í byggingu eftir tólf mánuði verða því 2.877 íbúðir hjá þessum fyrirtækjum sem er líkt og áður sagði 13% aukning frá því sem nú er.

Bættar markaðsaðstæður, þ.e. aukin sala og hækkun á verði íbúða, virðast hafa glætt uppbyggingaráform. Í niðurstöðum könnunarinnar eru skýr skilaboð um að lóðaskortur, háir vextir og skattahækkun stjórnvalda á síðasta ári, þ.e. þegar þau lækkuðu endurgreiðslu virðisaukaskatts við vinnu manna á verkstað úr 60% í 35%, hafi dregið úr uppbyggingu íbúða. Í könnuninni segja 56% svarenda að fyrirtækið eigi erfiðara með að selja íbúðir nú en fyrir 6 mánuðum samanborið við 75% svarenda í könnuninni sem gerð var í lok síðastliðins árs. Nú svara 22% þeirri spurningu neitandi samanborið við 4% í síðustu könnun

Byggingar_1720072953259

Hér er hægt að nálgast greininguna.