Fréttasafn



20. okt. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Veruleg áhrif af skorti á losunarstöðvum

„Áhrifin af þessum skorti á losunarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu eru veruleg, ef við horfum til dæmis til umhverfissjónarmiða,“ segir Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í frétt Morgunblaðsins en í fyrradag fjallaði blaðið um að malarhaugar gerðu íbúum við Árskóga lífið leitt. Í fréttinni kemur fram að Bjartmar leggi áherslu á að koma þyrfti fyrir almennilegri losunaraðstöðu innan Reykjavíkur. Eins og staðan sé í dag þurfi verktakar að losa sig við möl og tilheyrandi utan höfuðborgarsvæðisins og nefnir Bjartmar sem dæmi losunarstöð Sorpu í Bolaöldu. Svo að það sé sett í samhengi sé losunarstöðin í Bolaöldu tæpum 18 kílómetrum frá íbúðabyggðinni í Árskógum og væri því ferð fram og til baka tæpir 36 kílómetrar með tilheyrandi úrlosun efna. 

Ekki unnt að endurnýta jarðefnin þegar er langt á milli losunarstöðvar og byggðar

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Bjartmar bendi einnig á að auk þess að langt sé á milli losunarstöðvar og byggðar sé ekki unnt að endurnýta jarðefnin, heldur sé þeim fargað. Hann segir að í tilfelli malarhauganna við Árskóga sé það „skýr afleiðing af skorti á losunarstöðvum“. Til standi að endurnýta jarðefnin úr malarhaugunum við Árskóga í aðra byggingarframkvæmd, en viðkomandi byggingarverktaki hafi nýlega fengið leyfi til jarðvegsskipta á lóðinni sem hafi tekið rúmt hálft ár að fá í gegn. 

Veita byggingarfulltrúum nauðsynlegar heimildir

Í fréttinni segir að svo virðist sem skriffinnska geri mönnum erfiðara fyrir. Bjartmar segir að einfalt leyfi til jarðvegsskipta á lóðinni hefði leyst þetta vandamál fyrr og aukið verðmæti lóðarinnar töluvert, en ekki sé gert ráð fyrir slíku leyfi í byggingarreglugerð. „Besta lausnin á málinu væri að endurskoða regluverk sem snýr að jarðvegsframkvæmdum og veita byggingarfulltrúum nauðsynlegar heimildir til útgáfu slíkra leyfa og um leið að hraða á stjórnsýslunni svo að óæskileg söfnun vegna tafa eigi sér ekki stað með tilheyrandi ama fyrir íbúða nærliggjandi hverfa.“ 

Morgunblaðið, 20. október 2023.

 

Morgunbladid-20-10-2023