Fréttasafn



4. maí 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Verulegur samdráttur fram undan í byggingu íbúða

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu að hækkandi fjármagnskostnaður dragi hratt úr umsvifum í uppbyggingu íbúða. Að óbreyttu sé fram undan verulegur samdráttur í byggingu íbúða sem geti leitt til verðhækkana með tilheyr­andi verðbólgu eftir tvö til þrjú ár. Vaxtahækkanir slái nú vissulega á verðbólgu en geti síðar leitt til skorts á íbúðum og verðbólgu.

Í nýrri greiningu SI sem vísað er til í fréttinni er greint frá könnun meðal stjórnenda verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir í eigin reikning þar sem kemur meðal annars fram að 88% stjórnenda segja hækkandi fjármögnunarkostnað koma til með að draga úr uppbyggingu þeirra á íbúðum. Þá sögðu 20% stjórnenda að dregið hafi úr möguleikum þeirra til að fjármagna byggingu íbúða á síðustu sex mánuðum en rúmur meirihluti, eða 52%, sagði svo ekki vera. Ein afleiðingin er sú, að sögn Sigurðar, að draga mun úr uppbyggingu nýrra íbúða. Það birtist í því að stjórnendur umræddra fyrirtækja reikni með að hefja smíði 509 íbúða á næstu 12 mánuðum, samanborið við 1.473 íbúðir á síðustu 12 mánuðum. Það sé 65% samdráttur.

Í fréttinni kemur fram að könnunin hafi náð til fyrirtækja sem eru nú að byggja alls 2.062 íbúðir og teljist það vera fjórðungur af heildarfjölda íbúða sem eru í byggingu í landinu.

Morgunblaðið / mbl.is, 4. maí 2023.

Morgunbladid-04-05-2023_2