Fréttasafn



10. ágú. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Við erum komin inn í tímabil orkuskorts á Íslandi

„Það má segja að raforka á Íslandi sé nánast uppseld. Þetta hefur neikvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu um allt land. Við erum komin inn í tímabil orkuskorts á Íslandi og sú staða mun versna á komandi árum ef ekkert verður að gert, miðað við núverandi forsendur.“ Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins. 

Sigríður segir í fréttinni að Samtök iðnaðarins taki heilshugar undir áhyggjur Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og ábendingar hans séu í samræmi við það sem Samtök iðnaðarins hafi áður sagt. „Staðan í orkumálum er að verða grafalvarleg. Stjórnvöld eru því miður ekki að taka á þessari stöðu með nægilega markvissum hætti.“ Hún segir mikilvægast af öllu að búa til umgjörð sem liðkar fyrir markmiðum Íslands um orkuskipti. 

Óraunhæft markmið um orkuskipti miðað við núverandi forsendur

Í fréttinni segir að stjórnvöld hafi sett það markmið að skipta út jarðefnaeldsneyti alfarið fyrir græna raforku fyrir árið 2040 og segir Sigríður að miðað við núverandi forsendur sé það markmið fullkomlega óraunhæft, þurfi einfaldari leyfisveitingar „Við væntum þess af orkumálaráðherra og ríkisstjórninni í haust að eitthvað verði gert til að liðka fyrir grænni orkuöflun í stjórnkerfinu sem yrði í samræmi við það sem er verið að gera hjá öðrum vestrænum þjóðum. Það þarf að samræma ferla og einfalda leyfisveitingar og það er mögulega hægt að gera það í einu lagafrumvarpi.“ 

Metinnflutningur á olíu á þessu ári

Sigríður segir í Morgunblaðinu að olíunotkun á Íslandi sé að aukast þvert á háleit markmið um olíulaust Ísland og tekur fram að svo virðist sem nýtt met verði sett á þessu ári hvað varðar olíunotkun á Íslandi á einu ári. „Við flytjum inn milljón tonn af olíu á ári. Það verður líklega metinnflutningur á olíu á þessu ári og við byggjum það á því að raforkukerfið er svo gott sem fulllestað,“ segir Sigríður í fréttinni og ítrekar að það þurfi að tvöfalda raforkuframleiðslu til að ná markmiðum um orkuskipti. 

Aðalhindranirnar í stofnunum innan stjórnkerfisins

Sigríður segir í fréttinni að ekki sé við Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að sakast og segir að aðalhindranirnar gagnvart frekari framkvæmdum sem stuðla að grænni orkuöflun virðist vera í stofnunum innan stjórnkerfisins: „Guðlaugur hefur gert meira í orkumálum en hefur verið gert á síðustu tíu árum og er ötull talsmaður þess að búa til græna orku á Íslandi. Málið virðist að einhverju leyti stranda á ríkisstjórninni. Þetta er ekki alltaf hvernig lögin eru, þetta er líka hvernig stofnanirnar vinna. Það er mikið viðnám.“

Í fréttinni kemur fram að hún vonist til þess að það skapist pólitísk samstaða um að liðka fyrir grænni orkuöflun á Íslandi.

Morgunblaðið / mbl.is, 10. ágúst 2023. 

Morgunbladid-10-08-2023