Fréttasafn



5. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Við getum lagt mikið af mörkum í loftslagsmálum

Íslensk fyrirtæki, íslenskt hugvit og tæknilausnir, eiga mikið erindi í loftslagsmálum á heimsvísu. Við getum klárlega lagt mikið af mörkum í loftslagsmálunum. En við þurfum að byrja á því að taka til heima hjá okkur. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, meðal annars í Silfrinu á RÚV þar sem rætt var um loftslagsmál í gærkvöldi. Hún segir að áhugi atvinnulífsins sé að aukast með ári hverju og það sé alltaf stærri hluti af þeim sem fari frá Íslandi á ráðstefnu COP.  Hún segir að það komi á óvart hversu stórt og mikið þetta sé og stór hluti af COP sé þar sem fyrirtæki séu að koma og kynna fjárfestingar og lausnir í nýsköpun og tækniþróun á sviði loftslagsmála. Hún segir að samningamálin séu vissulega mikilvæg en þær séu bara brot af því sem eigi sér stað og það veki með henni bjartsýni. 

Miðað við núverandi forsendur algjörlega óraunhæft markmið

„Ef við horfum á loftslagsmarkmið Íslands þá verður maður ekkert sérstaklega bjartsýnn á þessi heildarloftslagsmarkmið. Við sjáum það líka bara á frá undirritun Parísarsáttmálans hefur losun bara verið að aukast og það er mikill fókus í umræðunni á þessar samningaviðræður og ná þessu niður í eina og hálfa gráðu. Það er gott að heyra frá Dubai að það er verið að fókusa á aðgerðir. Við náum engum árangri, hvorki heimsbyggðin né Ísland, án aðgerðanna.“ 

„Það er staðan hér heima á Íslandi að við erum að fjarlægjast markmiðin, við erum í öfugum orkuskiptum þessa dagana. með aukini olíubrennslu. það má segja að það er ekki nægilegt að setja okkur háleit markmið og Ísland er bara dæmi um það að markmiðin duga okkur mjög skammt ef við fylgjum þeim ekki eftir með afdráttarlausum aðgerðum. Maður væntir þess og við bindum vonir við nýja aðgerðaráætlun stjórnvalda sem er í vinnslu. Við væntum þess og vonum að þær aðgerðir sem atvinnulífið hefur verið að leggja til verði teknar með í reikninginn.“ Þar er Sigríður að vísa til Loftslagsvegvísa atvinnulífsins sem eru tillögur að aðgerðum. Hún segir að hafa þurfi í huga að meirihluti þessara aðgerða og það sem við ráðum yfir séu orkuskipti. „Sumt er auðvitað hnattrænar breytingar sem við ráðum ekki alveg yfir en hér á Íslandi getum við verið í fararbroddi í því að ná fullum orkuskiptum. En miðað við núverandi forsendur þá er það algjörlega óraunhæft markmið.“

RÚV, 4. desember 2023.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Tinna Hallgrímsdóttir loftslagssérfræðingur, Valgeir Örn Ragnarsson, umsjónarmaður Silfursins, Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, og Sigríður Mogensen sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

RUV-04-12-2023_1Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.