Fréttasafn7. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Viðbúin stýrivaxtahækkun vegna hækkana á íbúðaverði

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Fréttablaðinu að stýrivaxtahækkun Seðlabankans um 0,25 prósent, eða alls í 1,5 prósent, hafi verið viðbúin og að verðbólga, sem sé 4,4%, hafi verið þrálát að undanförnu og verðbólguvæntingar yfir 2,5% markmiði bankans. Hann segir að verðhækkun íbúða hafi stuðlað að aukinni verðbólgu. „Horft fram hjá húsnæðislið er verðbólga nánast við markmið Seðlabankans. Það sýnir að stýrivaxtahækkunin nú er til að bregðast við hækkunum á íbúðaverði.“

Alvarlegar afleiðingar af lóðaskorti

Í Fréttablaðinu segir Ingólfur að verðhækkun íbúða megi annars rekja til þess að framboðsskortur hrjái íbúðamarkaðinn á sama tíma og eftirspurn sé mikil, sögulega lágir vextir hafa, ásamt vaxandi kaupmætti launa, leitt til aukinnar eftirspurnar en hins vegar sé vandinn sá að framboð af íbúðum sé tiltölulega lítið. „Hillurnar fyrir nýjar íbúðir eru tómar. Lítið framboð af lóðum af hálfu sveitarfélaga takmarkar framboðið. Afleiðingin er hækkun verðs íbúða, aukin verðbólga og hærri vextir. Afborganir lána heimilanna hækka og kaupmáttur ráðstöfunartekna rýrnar. Veldur þetta óróleika á vinnumarkaði en ljóst er að íbúðamálin verða stór þáttur í komandi kjaraviðræðum. Afleiðingarnar eru því alvarlegar.“

Athafnir sveitarfélaga fylgdu ekki varðnaðarorðum

Þá kemur fram í fréttinni að Ingólfur segir að Samtök iðnaðarins hafi á síðustu misserum bent á hættumerkin en samdrátt í íbúðum á fyrstu byggingarstigum í talningu SI hafi mátt greina árið 2018 og vöruðu samtökin strax þá við þeirri þróun. „Í fyrra var samdrátturinn orðinn það mikill að íbúðir á þessum byggingarstigum voru orðnar sögulega mjög fáar. Er þetta að koma fram í framboðsskorti nú. Staðan var fyrirséð. Athafnir sveitarfélaga fylgdu ekki varnaðarorðum. Því eru vextir hækkaðir nú.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 7. október 2021.

Frettabladid-07-10-2021