Fréttasafn30. des. 2016 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Viðburðaríkt ár

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, svaraði spurningum Viðskiptablaðsins um árið sem er að líða og væntingar til næsta árs.  

Hvernig var árið 2016 þegar á heildina er litið? Árið hefur verið afskaplega viðburðaríkt á öllum vígstöðvum. Ég náði að útskrifa tvö af þremur börnum mínum á árinu, annað sem vélstjóra og hitt sem stúdent. Rekstur Kjörís hefur gengið vel. Það er ekki hægt að kvarta yfir íssölu enda veðrið leikið við landsmenn og gerir enn. Það stendur einnig upp úr að á árinu tók ég við stjórnarformennsku í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Það er krefjandi og áhugavert starf sem ég vil sinna vel.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu? Ég verð að nefna að áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám hafta sem og uppgjör við kröfuhafann var gríðarlega vel unnin og virðist ætla að ganga eftir. Uppgangur ferðaþjónustunnar er einnig eftirtektarverður.

Hverjar eru væntingar þínar til næsta árs? Ég vænti þess að ný ríkisstjórn taki aftur upp verkefnið „ALLIR VINNA“ sem gekk út á það að virðisaukaskattur vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús fæst endurgreiddur. Þetta er ein allra besta leið til að útrýma svartri atvinnustarfsemi í byggingargeiranum. Ég vænti þess að tryggingargjald verði lækkað og ég vænti þess að launamenn og atvinnurekendur gangi samstíga í því að skapa hér nýtt vinnumarkaðsmódel sem mun verða til þess að auka hér hagsæld til muna þegar til framtíðar er litið.

Hver eru mikilvægustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar? Það er algert forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að koma SALEK-viðræðunum aftur af stað og klára frumvarp um jöfnun lífeyrissjóðsréttinda. Ný ríkisstjórn þarf einnig að vinna að því með öllum ráðum að koma í veg fyrir ofhitnun í hagkerfinu og frekari styrkingu krónunnar sem er mikið áhyggjuefni. Krónan dregur lífsþróttinn úr íslenskum útflutningsfyrirtækjum. Við það er ekki hægt að búa. Ég hef einnig sagt það lengi að það eru gríðarleg vonbrigði að ríkið hafi ekki lækkað tryggingargjaldið á fyrirtækin í landinu. Það er tækifæri til að gera það núna og svo þarf að lækka vexti. Styrking krónunnar og háir vextir gera það að verkum að samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem eru í útflutningi er að hverfa veg allrar veraldar.

Viðskiptablaðið, 29. desember 2016.