Fréttasafn



11. apr. 2022 Almennar fréttir

Viðskiptum við Rússland sjálfhætt vegna lokunar greiðslumiðlunar

„En auðvitað segir það sig sjálft að þegar hefur að miklu leyti verið lokað fyrir greiðslumiðlun frá Rússlandi þá eiga íslensk fyrirtæki mjög erfitt með að fá greitt fyrir þær vörur eða þjónustu sem að þau selja til Rússlands þannig að í einhverjum tilvikum er þeim viðskiptum bara sjálfhætt," segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt RÚV. Þar kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi ekki lagt fyrirtækjum línur með afstöðu til viðskipta við Rússa eftir að stríðsátök hófust í Úkraínu en Sigurður gerir þó ráð fyrir verulegum samdrætti í þeim viðskiptum.

Í frétt RÚV segir að Íslendingar eigi í milljarðaviðskiptum við rússnesk fyrirtæki árlega en íslensk fyrirtæki séu farin að leita hófanna annars staðar. Mörg íslensk fyrirtæki hafi að sögn Sigurðar verið í viðskiptum við Rússland og Úkraínu. Viðskiptin hafi fært mikilvægar tekjur inn i fyrirtækin og stór hluti af veltunni. Þannig að þau fyrirtæki hafi fundið verulega fyrir með fjárhagslegum hætti fyrir ástandinu. Þegar Sigurður er spurður hvaða framleiðsluvörur það séu helst sem að fólk hefur verið að selja til Rússa? Það sem að helst hefur verið selt svona síðustu árin eru tæki eða vélbúnaður fyrir matvælaframleiðslu. 

Þá segir í fréttinni að eftir viðskiptabann árið 2014 á matvæli, sjávarfang þar á meðal, fóru Rússar að byggja upp framleiðslugetu í matvælaiðnaði heima fyrir. Þeir fóru að fjárfesta hjá íslenskum tæknifyrirtækjum í vélbúnaði og kælibúnaði og jafnvel í hönnun skipa. Rússaviðskipti teygja anga sína því víða í íslenskum iðnaði. 

Jafnframt kemur fram í frétt RÚV að sögn Sigurðar hafi Rússar reynt hvað þeir geti að halda viðskiptasamböndum og viðskiptum áfram við Íslendinga: Fyrstu viðbrögð voru náttúrulega að reyna að halda þessu opnu en óvissan er það mikil og stríðsátökin hafa dregist á langinn þannig að ég held að íslensk fyrirtæki að minnsta kosti séu þegar farin að leita nýrra markaða.

RÚV, 10. apríl 2022.