Fréttasafn



22. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Viðsnúningur hjá arkitektastofum

Í nýrri greiningu SI kemur fram að greina megi viðsnúning í rekstri arkitektastofa samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja innan Samtaka arkitektastofa, SAMARK. Eftir samdráttartímabil virðist nú vera vöxtur framundan. Verkefnum og starfsfólki er að fjölga og stór hluti stjórnenda telur að hagnaður stofanna verði meiri á þessu ári en í fyrra.

Þegar rýnt er í veltu í starfsemi arkitekta má sjá að vöxtur mælist á fyrstu 2 mánuðum þessa árs í fyrsta sinn í tvö ár. Frá upphafi árs 2019 hefur verið samfelldur samdráttur í veltu arkitekta en nú á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2021 mælist aukning upp á 18% samanborið við sama tíma í fyrra. Styður þetta við niðurstöður könnunarinnar um að umsvif séu að aukast og að staða greinarinnar sé að færast í betra horf eftir erfiða tíma. Einnig er þetta vorboði fyrir byggingariðnaðinn í það heila en upphaf niðursveiflu og uppsveiflu í greininni má oft ráða af þróun umsvifa hjá arkitektastofum vegna þess hversu framarlega verkefni þeirra eru í byggingaferlinu. 

Þrátt fyrir þann vöxt sem nú greinist er umfang starfseminnar lítið m.v. það sem það var fyrir niðursveifluna. Ýmis kerfislæg vandamál eru til staðar sem hægja á viðsnúningnum. Núverandi starfsumhverfi byggingarmála er óskilvirkt og óhófleg reglubyrgði eykur flækjustig og hægir á uppbyggingu. Ferlið frá teikningu að lokafrágangi er allt of tímafrekt

Í könnuninni kemur fram að enginn svarenda telur að starfsfólki komi til með að fækka á næstunni en 53% segja að þeim muni fjölga. Þá segja 47% að fjöldi starfsmanna muni standa í stað á næstu mánuðum. Það er umtalsverð breyting frá því sem verið hefur síðustu mánuði en stjórnendur arkitektastofa voru einnig beðnir um að svara því hvort starfsmönnum hafi fjölgað eða fækkað á liðnum mánuðum. Tæplega helmingur, eða 47%, svara því að starfsfólki hafi fjölgað á síðustu mánuðum, 29% segja að starfsmannafjöldi hafi staðið í stað og fjórðungur segja hann hafa dregist saman. Gefur þetta góð fyrirheit, að starfsfólki sé farið að fjölga á ný og stjórnendur arkitektastofanna sjái fram á betri tíð í rekstri sinna fyrirtækja.

Svarendur voru beðnir um að leggja mat á þeirra upplifun á stöðunni á markaðnum í dag. Mikill meirihluti segir að verkefnum hafi fjölgað undanfarið eða 71% svarenda. Aðeins 6% svara því að verkefnum hafi fækkað sem eru jákvæð tíðindi. Þá segja 23% að staðan hafi lítið sem ekkert breyst og verkefnum hvorki fjölgað né fækkað.

Könnunin var gerð á meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja SAMARK dagana 10. til 29. apríl síðastliðinn. Úrtakið taldi 26 félagsmenn og bárust 17 svör.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.