Fréttasafn26. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Víðtæk efnahagsleg áhrif COVID-19

Ljóst er orðið að efnahagsáhrif COVID-19 veirunnar hér á landi verða mikil. Víða eru áhrifin þegar sýnileg, m.a. í ferðaþjónustu, verslun og iðnaði. Samtök iðnaðarins hafa bent á ýmis atriði sem eru til þess fallinn að styrkja aðgerðir stjórnvalda enn frekar og auka líkur á öflugri viðspyrnu fyrir íslenskt efnhags- og atvinnulíf til skemmri og lengri tíma. SI fagna yfirlýsingum forystumanna ríkisstjórnarinnar um að meira verði gert og taka heilshugar undir að betra sé að gera meira en of lítið við þessar aðstæður. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, hefur skoðað sviðsmyndir Seðlabankans sem kynntar voru í gær og tekið eftirfarandi saman:

Eftirspurn hefur dregist hratt saman, ferðamenn nær alveg horfið og neysla heimilanna snarminnkað. Barátta stjórnvalda hefur snúist um að hefta útbreiðslu veirunnar, bjarga mannslífum á sama tíma og þau reyna að halda efnahagslífinu á floti. Veirufaraldurinn er tímabundinn og áhrifa hans munu ganga yfir. Hversu langvarandi og djúpstæð áhrifin verða er m.a. háð því hversu vel tekst til með mótvægisaðgerðir.

Veiran tekur 3-5½% af landsframleiðslunni samkvæmt sviðsmyndum Seðlabankans

Íslenska hagkerfið var þegar í niðursveiflu þegar veirufaraldurinn skall á hér á landi. Hagvöxtur var hægur og atvinnuleysi umtalsvert og vaxandi. Efnhagsleg óveðurský höfðu þegar safnast yfir landinu. Seðlabanki Íslands hafði í því sambandi lækkað hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár um 2,8% niður í 0,8% á tiltölulega stuttum tíma. Einnig hafði bankinn hækkað atvinnuleysisspá sína úr 3,3% í 4,2%.

Í gær birti Seðlabankinn tvær sviðsmyndir af hugsanlegum efnahagsáhrifum veirunnar. Um er að ræða fyrstu opinberu sviðsmyndagreininguna á hugsanlegum efnhagsáhrifum veirunnar. Það er virðingarvert að bankinn birti slíka greiningu sem grundvöll umræðu og ákvörðunartöku í þeirri miklu óvissu sem nú er til staðar í efnahagslífinu.

Í grunninn notar bankinn ofangreinda spá um 0,8% hagvöxt í ár en í þeirri spá var ekki gert ráð fyrir áhrifum veirunnar á íslenskt efnahagslíf. Hljóða sviðsmyndirnar upp á samdrátt í landsframleiðslu um 2½-5%, þ.e. að veiran taki 3-5½% af landsframleiðslu þessa árs. Einnig segir bankinn að atvinnuleysi gæti farið upp í 5½-7%. Í stað vaxtar einkaneyslu um 2,4% í grunnspánni segir í sviðsmyndunum að neyslan gæti dregist saman um 1-4%.

Auðvelt að teikna upp svartari mynd

Auðvelt er að teikna upp svartari mynd af efnahagslegum áhrifum veirunnar. Íslenska hagkerfið er í viðkvæmri stöðu fyrir áhrifum veirunnar vegna þess hvað ferðaþjónustan vegur þungt í okkar gjaldeyristekjum og efnahagslífi. Umfang greinarinnar í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins nam rétt um 35% í fyrra og er það meira en mælist í nær öllum þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við. Byggir sviðsmyndagreiningin m.a. á forsendu um að veiran leiði til 37%-55% samdráttar í fjölda ferðamanna hér á landi. Í ljósi þess að ríki heims hafa gripið til víðtækra sóttvarnarviðbragða sem dregið hafa verulega úr ferðalögum og að faraldurinn er víðast hvar enn í miklum vexti er vel hugsanlegt að samdrátturinn í fjölda ferðamanna verði meiri.

Hagstjórnaraðgerðir móta niðurstöðuna

Sviðsmyndir Seðlabankans eru án áhrifa aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem kynnt var nýlega. Aðgerðirnar eru bæði fjölþættar og umfangsmiklar en góð skuldastaða ríkissjóðs gefur ríkisstjórninni svigrúm til að beita opinberum fjármálum af þunga til að mæta þessari efnahagsvá.

Það er jákvætt að sjá að ríkisstjórn, Seðlabanki Íslands, lánveitendur og aðilar vinnumarkaðarins hafa gengið í takt undanfarið að sameiginlegu markmiði að milda efnahagsleg áhrif veirunnar. Aðstæður eru erfiðar sem útheimta að allir vinni saman að lausn vandans. Sviðsmyndagreining Seðlabankans er grundvöllur umræðu um hugsanleg efnahagsleg áhrif og jákvætt útspil sem slíkt þó deila megi um forsendur og niðurstöður líkt og gefur að skilja.

Svidsmyndir-Sedlabankans