Víkurskóli er nýjasti GERT-skólinn
Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI, heimsótti Víkurskóla sem er unglingaskóli í norðanverðum Grafarvogi sem ætlaður er nemendum úr Borga-, Engja-, Staða- og Víkurhverfi. Skólinn sem nýjasti GERT-skólinn en GERT verkefnið stendur fyrir Grunnmenntun efld í raunvísindum og tækni. GERT tengir skóla við atvinnulífið og býður upp á lausnir sem geta leitt af sér aukna þekkingu og ekki síður áhuga á raunvísindum og tækni og þannig uppfyllt betur framtíðarþörf vinnumarkaðar.
Víkurskóli hóf starfsemi sína 1. ágúst 2020 og er með sérstaka áherslu á nýsköpun. List- og verkgreinum er gert hátt undir höfði og áhersla er lögð á að nemendur vinni saman þvert á árganga. Nemendum er blandað saman í ákveðnum tímum, svokölluðum Uglum, þar sem þeir vinna í lotum sem tengjast ákveðnu þema í hvert sinn. Sérstök list- og verkgreinaálma er í skólanum þar sem er nýsköpunarstofa og svokallað græna herbergi eru í undirbúningi af nemendunum sjálfum sem sjá um teikningar og hönnun.
Jóhanna Vigdís segir að það verði mjög áhugavert að sjá afraksturinn en vonir standi til að fleiri skólar í nágrenninu geti notið góðs af nýsköpunarstofunni í framtíðinni.
Á myndinni eru Jóhanna Vigdís og Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla.
List- og verkgreinum er gert hátt undir höfði í Víkurskóla.
Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá Samtökum iðnaðarins, og Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla.