Fréttasafn17. mar. 2023 Almennar fréttir Félag vinnuvélaeigenda Mannvirki

Vilhjálmur Þór nýr formaður Félags vinnuvélaeigenda

Vilhjálmur Þór Matthíasson, var kosinn nýr formaður Félags vinnuvélaeigenda, FVE, sem fram fór í gær í fundarsal The Reykjavík Edition hótelsins. Gísli Elí Guðnason var kosinn varaformaður. Aðrir í stjórn eru Hreinn Sigurjónsson, Ívan Örn Hilmarsson, Óskar Guðjónsson og Pétur Kristjánsson en þeir sátu allir í fyrri stjórn. Gottskálk Jón Bjarnason og Sveinbjörn Runólfsson voru kosnir áfram sem skoðunarmenn reikninga félagsins. Bjartmar Steinn Guðjónsson stýrði fundinum og Elísa Arnardóttir sinnti fundarritun, bæði viðskiptastjórar á mannvirkjasviði SI.

Á fundinum fór Óskar Sigvaldason, fráfarandi formaður, yfir skýrslu stjórnar og voru fundarmenn sammála um að síðastliðið starfsár stjórnar hafi verið viðburðarríkt en skýrsluna má nálgast hér. Eftir yfirferð skýrslunnar fór fundarstjóri yfir ársreikning félagsins og í kjölfarið var ákveðið að árgjöld þess skyldu haldast óbreytt næsta starfsárið.

Fyrir aðalfundinn hafði Óskar Sigvaldason tilkynnt stjórn að hann hugðist ekki bjóða fram krafta sína til stjórnar félagsins lengur en hann hefur setið í stjórn félagsins frá 2013, lengst af sem formaður félagsins. Þá kvaðst Gunnbjörn Óli Jóhannsson einnig segja af sér stjórnarsetu. Voru þeim báðum færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Stjórn félagsins og félagsmenn þess hafa síðustu misseri mikið rætt um nauðsyn stöðugrar innviðauppbyggingar sem þeir koma allir að í störfum sínum auk þess sem hávarar kröfur og umræður eru um orkuskipti í flota félagsmanna. Að því tilefni lagði stjórn til að stofnaðar yrðu tvær nýjar starfsnefndir á vegum félagsins, Innviðanefnd FVE og Orkuskiptanefnd FVE, sem skipaðar yrði af stjórnarmönnum og félagsmönnum og hefði það hlutverk að stuðla að opinberri umræðu um málefnin og gæta hagsmuna félagsmanna sinna að þessu leyti. Fundarmenn voru einróma sammála um ágæti þess að stofnaðar yrðu slíkar nefndir og fór svo að til Innviðanefndar FVE buðu sig fram Gísli Elí Guðnason, Pétur Kristjánsson og Árni Geir Eyþórsson en til Orkuskiptanefndar FVE buðu sig fram Vilhjálmur Þór Matthíasson, Óskar Guðjónsson, Óskar Sigvaldason og Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Við lok fundar lagði stjórn til að tekin yrði umræða um mögulega nafnabreytingu félagsins og breytingu á merki þess þar sem félagsmönnum þætti nafn og merki þess ekki nægjanlega vel lýsandi fyrir starfsemi félagsins og aðildarfyrirtæki þess. Fundarmenn tóku mjög vel í þá umræðu og nauðsynlegt væri að breyta ásýnd félagsins til betri vegar þar sem stefna þess væri í þá átt að taka þátt í frekari opinberri umræðu og auka á sýnileika þess og félagsmanna. Fundarmenn lögðu til að farið yrði í heildstæða stefnumótun fyrir félagið á komandi misserum þar sem stefna næstu ára yrði lögð fyrir og teknar yrðu einnig fyrir tillögur að nýju nafni félagsins. Nýkjörin stjórn fagnaði tillögunni og mun leggja til skipulag og dagsetningar fyrir stefnumótun félagsins á vinnudegi þess sem síðar verði auglýstur.

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Gunnbjörn Óli Jóhannsson, Vilhjálmur Þór Matthíasson, Gísli Elí Guðnason, Pétur Kristjánsson, Ívan Örn Hilmarsson, Óskar Sigvaldason, Óskar Guðjónsson og Hreinn Sigurjónsson.

Hér er hægt að nálgast skýrslu stjórnar FVE.

Image00006_1679050137153

Image00003_1679050155705Óskar Sigvaldason, fráfarandi formaður. 

Image00007_1679050185027Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.

Image00002_1679050207099

Image00013_1679050227842Gunnbjörn Óli Jóhannsson, Vilhjálmur Þór Matthíasson, Gísli Elí Guðnason, Pétur Kristjánsson, Ívan Örn Hilmarsson, Óskar Sigvaldason, Óskar Guðjónsson, Hreinn Sigurjónsson og Bjartmar Steinn Guðjónsson.