Fréttasafn



21. des. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Starfsumhverfi

Vilja að frumvarp um fjarskipti verði dregið til baka

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands gera alvarlegar athugasemdir við frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, 169. mál, í umsögn sinni. 

Í umsögninni er gagnrýnt samráðsleysi við gerð frumvarpsins og þann hraða sem lagt er upp með við að koma umræddum breytingum í gegn. Leggja samtökin til að fallið verði frá frumvarpinu og að efnisatriði frumvarpsins verði tekin inn í annars vegar heildarskoðun á lagaumgjörð erlendrar fjárfestingar og rýni á fjárfestingu erlendra aðila í samfélagslega mikilvægum innviðum, sem stendur til að leggja fram, og hins vegar heildarendurskoðun á fjarskiptalögum. Samtökin segja að nauðsynlegt sé að hvers kyns lagabreytingar á sviði erlendrar fjárfestingar séu vel ígrundaðar og byggi á samráði við íslenskt atvinnulíf enda skiptir erlend fjárfesting íslenskt efnahagslíf miklu máli til framtíðar.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir að í ljósi þeirra atriða sem að framan séu rakin hvetji samtökin til þess að frumvarpið verði dregið til baka en efnistök þess tekin inn í heildarendurskoðun á annars vegar fjarskiptalögum og hins vegar rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis á komandi ári.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.