Fréttasafn



2. nóv. 2016 Almennar fréttir

Vilja endurskoðun á ákvörðun kjararáðs

Framkvæmdastjórnir Samtaka atvinnulífsins, sem Samtök iðnaðarins eru aðili að, og Viðskiptaráðs Íslands hafa samþykkt ályktun þar sem Alþingi er hvatt til þess að grípa tafarlaust til ráðstafana vegna ákvarðana kjararáðs sem stjórnirnar telja að stuðli að upplausn á vinnumarkaði. Sýnt er fram á að hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma séu ákvarðanir kjararáðs úr takti við launaþróun á vinnumarkaði.

Í ályktun sem birt er á vefsíðu SA segir að ef Alþingi ætlar sér að stuðla að auknu trausti til löggjafans og sátt á vinnumarkaði þá er endurskoðun á ákvörðunum kjararáðs óumflýjanleg. Ógilding ákvarðana þess á við óháð því hvaða flokkar taka við stjórnartaumunum. Samhliða ógildingu nýlegra ákvarðana þarf að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um ráðið. Núverandi fyrirkomulag fellur engan veginn að þeim bættu vinnubrögðum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að á síðustu árum. Atvinnurekendur og stéttarfélög eru á einu máli í þessum efnum og ábyrgð nýs Alþingis því mikil. Næstu vikur leiða í ljós hvort staðið verði undir þeirri ábyrgð.