Fréttasafn



16. jan. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vilja fá nýjan sæstreng fyrr

„Samtökin leggja áherslu á að ráðist verði í fjárhagslega endurskipulagningu á Farice og telja mikilvægt að lagður verði grunnur að nýjum sæstreng fyrr en gert er ráð fyrir þar sem staða gagnatenginga við útlönd dregur úr samkeppnishæfni gagnaversiðnaðar,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í frétt í Morgunblaðinu í dag um þann vilja Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins að hraða lagningu sæstrengs til Evrópu þar sem líkur séu á því að bilanatíðni núverandi gagnastrengja aukist eftir örfá ár. Í sameiginlegri umsögn samtakanna um tillögu að fjarskiptaáætlun sem nú er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eru stjórnvöld hvött til að hafa forystu um að tryggja lagningu þriðja sæstrengsins á tíma fimm ára áætlunar í fjarskiptum. 

Afnám núverandi einokunar

Í Morgunblaðinu segir Sigríður jafnframt að ef Íslandi sé alvara með að efla gagnaversiðnaðinn þurfi að efla gagnatengingarnar, meðal annars með lagningu nýs sæstrengs. Þá kemur fram í fréttinni að kallað hafi verið eftir samkeppni í sölu á gagnasambandi á milli landa. Farice, fyrirtækið sem rekur þá tvo  sæstrengi sem núna eru starfræktir, er bæði með heildsölu og smásölu á tengingum. Í umsögn samtakanna er hvatt til skoðunar á frekari aðkomu einkaaðila að markaði með gagnatengingar og afnáms núverandi einokunar og hinnar tvöföldu verðskrár á gagnatengingum.

Öruggar gagnatengingar mikilvægar fyrir gagnaversiðnaðinn

Í fréttinni segir að öruggt netsamband við útlönd sé mikilvægt fyrir fyrirtæki og einstaklinga í nútímasamfélagi og að við hafi bæst hagsmunir gagnavera sem hér hafa verið að byggjast upp og efla starfsemi sína og grundvallast á öruggu sambandi við viðskiptavini sína víða um heim. Sigríður segir að fyrirtæki sem eru að huga að uppbyggingu gagnavera hér á landi og fyrirtæki sem vilja eiga viðskipti við gagnaver sem hér eru horfi á ýmsa þætti, svo sem legu landsins, veðurfar, aðgang að endurnýjanlegri raforku og örugga gagnatengingu. 

Morgunblaðið/mbl.is,16. janúar 2019.