Fréttasafn



27. maí 2019 Almennar fréttir Menntun

Vilja fjölga þeim sem byggja háskólanám ofan á iðnnám

Fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins, Tækniskólans, Iðunnar fræðsluseturs og Rafmenntar skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um samstarf um að kortleggja, efla og kynna tækifæri á háskólanámi með atvinnutengd lokamarkmið, eftir iðnnám og aðra starfsmenntun.

Markmiðið með samstarfinu er að m.a. að fjölga nemendum í iðnnámi, sem og þeim sem byggja háskólanám ofan á iðnnám. Einnig að efla upplýsingagjöf, m.a. með því að koma því kröftuglega á framfæri hversu góður undirbúningur iðnnám er fyrir margvíslegt tækninám á háskólastigi og hversu eftirsóttir starfskraftar með slíka menntun eru í atvinnulífinu. Síðast en ekki síst snýst samstarfið um að kortleggja þær leiðir sem til eru á milli þessara skólastiga í dag og að auðvelda og skilgreina leiðir á milli þeirra. 

Í fréttatilkynningu segir að um þróunarverkefni sé að ræða sem eigi við iðnmenntun í byggingar-, málm-, vél-, bíl- og rafiðngreinum og háskólanám í Háskólanum í Reykjavík sem henti í framhaldi af iðnnámi í þeim greinum. Um leið sé stefnt að því að verkefnið geti orðið fyrirmynd sem hægt verði að yfirfæra á aðrar iðngreinar og starfsmenntun. Háskólinn í Reykjavík mun leiða verkefnið.

Markmiðið að fjölga enn frekar tækifærum sem felast í iðnnámi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var viðstödd undirritunina í Háskólanum í Reykjavík í dag og sagði m.a.: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikilvægi þess að efla iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og að því vinnum við með ötulum hætti í góðri samvinnu. Liður í því er að byggja fleiri brýr innan menntakerfisins, og við atvinnulífið, sem stuðlað geta að nánari samskiptum og samþættingu – þessi viljayfirlýsing er frábært dæmi um slíkt.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: „Mikil tækifæri bíða þeirra sem ljúka iðn- og tækninámi enda opnar slíkt nám fjölmargar dyr. Atvinnulífið bíður starfskrafta þeirra en þorri þeirra félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem vilja bæta við sig starfsfólki leitar að starfsmenntuðu fólki. Það er einfalt að fara í frekara nám fyrir þau sem það kjósa og er háskólamenntað fólk með starfsnám að baki mjög eftirsótt á vinnumarkaði. Með þessu samstarfi er markmiðið að fjölga enn frekar þeim tækifærum sem felast í iðnnámi með því að kynna námsmöguleika og þróa námsleiðir í takt við breytilegar þarfir atvinnulífs.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík: „Háskólinn í Reykjavík vinnur að því að efla íslenskt atvinnulíf og samfélag, meðal annars með því að mennta nemendur sína vel og undirbúa þá sem best fyrir framtíðina. Það hefur alltaf verið mikil þörf fyrir sérfræðinga með tæknimenntun og iðnmenntun, en þær breytingar sem fylgja yfirstandandi tæknibyltingu auka þessa þörf enn frekar. Íslenskt samfélag þarf öflugt fólk með fjölbreytta menntun sem getur nýtt þekkingu sína til að skapa ný verðmæti og þetta samstarf er mikilvægt skref í þeirri vegferð.“

Undirskrift-III

Undirskrift-IIFrá undirrituninni í HR í dag, Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmennt, Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar fræðsluseturs, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Ari K. Jónsson, rektor HR, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, og Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar HR.