Fréttasafn



8. okt. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vilja leiðréttingu á endurgreiðslu til kvikmyndaiðnaðar

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá sameiginlegri umsögn Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 þar sem gert er ráð fyrir niðurskurði endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi á næsta ári en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðstafa 691,4 milljónum króna í endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu. Í fréttinni kemur fram samkvæmt upplýsingum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands (KMÍ), sem heldur utan um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, nemi áætlaðar endurgreiðslur á næsta ári 1.650 milljónum króna miðað við útistandandi vilyrði frá því í september á þessu ári. Nú þegar stefni í að endurgreiðslum á 300 milljónum vegna ársins 2019 verði frestað fram á næsta ári og muni sú fjárhæð því koma til lækkunar þess sem verður til ráðstöfunar á næsta ári. Vitnað er í umsögn SI og SÍK þar sem þetta kemur meðal annars fram: „Ásamt því að um er að ræða niðurskurð á milli ára er einnig um stórvægilegt misræmi að ræða ef tekið er mið af útgefnum vilyrðum um endurgreiðslu. Ósamræmið sem hér um ræðir hlýtur að skýrast af röngum forsendum um áætlaðar endurgreiðslur á árinu 2020.“ Þá sé það ljóst að mati SI og SÍK að fjármagn til endurgreiðslu verði uppurið snemma á næsta ári verði fjárhæðin í fjárlagafrumvarpinu ekki leiðrétt í meðförum fjárlaganefndar. „Slíkt mun ekki einungis hafa í för með sér umtalsvert tjón fyrir þá aðila sem hafa fengið þessi vilyrði heldur mun orðspor Íslands sem kjörlendi til kvikmyndaframleiðslu bíða hnekki.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 8. október 2019.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI og SÍK.