Vilja minnka kolefnisspor með notkun vistvænni steypu
Þorgils Helgason, viðskiptastjóri á mannvirkjasvið SI, flutti erindi á Degi grænnar byggðar sem fór fram í Iðnó þar sem hann fór yfir niðurstöður vinnustofu um vistvænni steypu þar sem 50 hagaðilar komu saman í janúar síðastliðnum. Þorgils sagði meðal annars frá því að byggingarefni hafi verið talið bera ábyrgð á um 45% af kolefnisspori húsa á líftíma þeirra og að um 44% af kolefnisspori byggingarefnis myndist vegna steypunnar. Miðað við byggingarmenningu og staðsetningu Íslands hafi það að nota vistvænni steypu verið talin mjög aðgengileg leið til þess að minnka kolefnisspor við mannvirkjagerð.
Þá sagði Þorgils frá því að undanfarin ár hafi verið unnið hörðum höndum að því að undirbúa jarðveginn og greiða fyrir leiðina fyrir notkun á umhverfisvænni steypu til að mynda með rannsóknum og viðeigandi regluverki, til dæmis í gegnum samstarf byggjum grænni framtíð um vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð en notkun á vistvænni steypu hafi þó verið minni í framkvæmd en vonast hafi verið til.
Í máli Þorgils kom fram að helstu niðurstöður málstofunnar hafi verið að auka þurfi fræðslu, gera upplýsingar aðgengilegar, auka samtal milli hagaðila í virðiskeðjunni, setja græna hvata og auka stuðning við hönnuði.
Hér er hægt að nálgast glærur Þorgils.
Þorgils Helgason, viðskiptastjóri á mannvirkjasvið SI.