Fréttasafn5. júl. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Vilja nýtt innviðaráðuneyti að kosningum loknum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir í frétt Vísis að hann vilji að ráðuneyti sitt verði að „innviðaráðuneyti“ við myndun næstu ríkisstjórnar. Þá mundi innviðaráðherra hafa áfram á sinni könnu samgöngurnar og sveitarstjórnarmálin en myndi taka til sín skipulagsmálin frá umhverfisráðuneytinu og húsnæðismælin frá félagsmálaráðuneytinu. „Skipulagsmálin og sveitarstjórnarmálin eru svo nátengd, að það er mín skoðun og ég deili henni með Samtökum iðnaðarins að þau eigi heima saman í innviðaráðuneyti,“ segir Sigurður í frétt Vísis og bætir við að hið sama gildi um húsnæðismálin, sem nú séu innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem sé undir félagsmálaráðuneytinu. „Ef Framsóknarflokkurinn nær nægilega góðri stöðu eftir kosningar og ég get framkallað þessar hugmyndir mínar, þá mun ég standa fyrir því.“ 

Í frétt Vísis kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi átt frumkvæði að þessum hugmyndum og hafi Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI,skrifað fjölda greina um þetta áherslumál. Rætt er við Sigurð á Vísi sem segir að samtökin séu mjög vongóð um að eftir kosningar í september verði stokkað upp í ráðuneytunum og þar af leiðandi verði innviðaráðuneytið að veruleika, svona breytingar verða yfirleitt við ríkisstjórnarskipti. Í fréttinni segir Sigurður ekki óttast að þessar breytingar mæti mótstöðu. „En ég ætla ekki að fullyrða um það. Sigurður Ingi hefur verið mjög opinn með það hvað honum hugnast þessi breyting, að því gefnu að hann verði áfram í sama ráðuneyti.“  Hann segir í frétt Vísis að umræddir málaflokkar séu á of mörgum höndum í dag og að sameining þeirra myndi leiða til meiri skilvirkni og ábyrgðar af hálfu stjórnvalda, sem hafi vantað svolítið upp á og að uppbygging verði skilvirkari með einu sterku innviðaráðuneyti.

Vísir, 3. júlí 2021.