Fréttasafn4. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Vilja vandað húsnæði hraðar og með hagkvæmari hætti

Allir helstu hagaðilar í byggingariðnaði á Íslandi hafa undanfarin misseri unnið að því að greina markaðinn og gera tillögur að úrbótum um hvernig megi byggja hagkvæmar íbúðir til að mæta eftirspurn og verður útfærsla á þeim tillögum kynnt á næstu vikum. Þetta segir Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins sem er samráðsvettvangur byggingariðnaðarins, atvinnulífsins og opinberra aðila sem Samtök iðnaðarins eiga aðild að, í grein í Fréttablaðinu í dag með yfirskriftinni Allir þurfa þak yfir höfuðið. Byggingavettvanginum hefur verið falið að útfæra og vinna tillögur í skipulags- og byggingarmálum sem voru lagðar fram í skýrslu átakshóps ríkisstjórnarinnar að bættum húsnæðismarkaði. Sandra segir til mikils að vinna að efla samkeppnishæfni byggingariðnaðarins þannig að hægt sé að byggja hagkvæmari íbúðir og að Byggingavettvangurinn og aðilarnir sem að honum standa séu þannig í lykilstöðu til að leiða þetta mikilvæga verkefni.

Sandra-Hlif-Ocares-2019_1572876870565Hún segir að fordæmin séu til staðar og nægi að nefna aðgerðaáætlun ráðherra atvinnuvegaráðuneytisins um einföldun regluverks sem kynnt var á dögunum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, hafi auk þess hrint af stað vinnu sem snýr sérstaklega að ferðamálum og byggingariðnaðinum í samstarfi við OECD. Þar hafi m.a. komið í ljós að regluverkið í greinunum tveimur er eitt það þyngsta meðal ríkjanna sem þar eru undir og Ísland sé of lítið til að slíkt gangi upp.

„Ef við stöndum rétt að vinnunni er ekkert því til fyrirstöðu að vandinn á húsnæðismarkaði verði úr sögunni; að hægt verði að byggja upp vandað húsnæði hraðar og með hagkvæmari hætti til hagsbóta fyrir alla. Ekki síst fyrir almenning í landinu. Því allir þurfa þak yfir höfuðið.“

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa greinina í heild sinni.