Fréttasafn18. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Vilji til að nýta krafta íslensk iðnaðar

Formaður og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir og Sigurður Hannesson, áttu fund með framkvæmdastjóra Bjargs, Birni Traustasyni, síðastliðinn föstudag á skrifstofu Samtaka iðnaðarins til að ræða uppbyggingu íbúðafélagsins Bjargs og áherslur félagsins.

Bjarg íbúðafélag sem er stofnað af ASÍ og BSRB áformar að reisa 1.400 íbúðir á næstu árum til langtímaútleigu á hagstæðu verði fyrir félagsmenn sína. Íbúðirnar sem áformað er að byggja eru víða um land.

Á fundinum var rætt um íslenskan iðnað og hvað hann hefur fram að færa fyrir uppbyggingu þeirra íbúða sem Bjarg ætlar að koma á laggirnar. Í máli Björns kom fram að félaginu eru settar skorður þar sem skýr viðmið væru í hámarkskostnaði enda væri markmiðið að byggja á sem hagkvæmastan hátt svo hægt verði að halda leiguverði lágu.

Rætt var um uppbyggingu Bjargs á Akranesi en þar er verið að reisa hús úr innfluttum einingum. Þá var rætt um innlenda framleiðslu á innréttingum en hátt í aldarlöng hefð er fyrir þeim iðnaði hér á landi.

Framkvæmdastjóri Bjargs fagnaði þeim áhuga sem innlendir aðilar sýndu verkefnum íbúðafélagsins og lýsti yfir áhuga á að nýta krafta íslensk iðnaðar frekar við uppbyggingu félagsins.

Á fundinum kom fram að það væri sameiginlegt markmið launþega og atvinnurekenda að hér á landi verði til sem flest störf og að verðmætasköpun verði sem mest.