Fréttasafn



18. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Vilji til að nýta krafta íslensk iðnaðar

Formaður og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir og Sigurður Hannesson, áttu fund með framkvæmdastjóra Bjargs, Birni Traustasyni, síðastliðinn föstudag á skrifstofu Samtaka iðnaðarins til að ræða uppbyggingu íbúðafélagsins Bjargs og áherslur félagsins.

Bjarg íbúðafélag sem er stofnað af ASÍ og BSRB áformar að reisa 1.400 íbúðir á næstu árum til langtímaútleigu á hagstæðu verði fyrir félagsmenn sína. Íbúðirnar sem áformað er að byggja eru víða um land.

Á fundinum var rætt um íslenskan iðnað og hvað hann hefur fram að færa fyrir uppbyggingu þeirra íbúða sem Bjarg ætlar að koma á laggirnar. Í máli Björns kom fram að félaginu eru settar skorður þar sem skýr viðmið væru í hámarkskostnaði enda væri markmiðið að byggja á sem hagkvæmastan hátt svo hægt verði að halda leiguverði lágu.

Rætt var um uppbyggingu Bjargs á Akranesi en þar er verið að reisa hús úr innfluttum einingum. Þá var rætt um innlenda framleiðslu á innréttingum en hátt í aldarlöng hefð er fyrir þeim iðnaði hér á landi.

Framkvæmdastjóri Bjargs fagnaði þeim áhuga sem innlendir aðilar sýndu verkefnum íbúðafélagsins og lýsti yfir áhuga á að nýta krafta íslensk iðnaðar frekar við uppbyggingu félagsins.

Á fundinum kom fram að það væri sameiginlegt markmið launþega og atvinnurekenda að hér á landi verði til sem flest störf og að verðmætasköpun verði sem mest.