Fréttasafn12. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Villandi málflutningur borgarstjóra um byggingarlóðir

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann segir málflutning borgarstjóra um 3.000 byggingarlóðir villandi og að alltof fáar íbúðir séu reistar á hverju ári í borginni sem komi niður á ráðstöfunartekjum heimilanna. Í fréttinni kemur fram að borgarstjóri hafi lýst því yfir í síðustu viku að 3.000 lóðir væru lausar til uppbyggingar í Reykjavík og þau ummæli komi Samtökum iðnaðarins spánskt fyrir sjónir. „Einu lóðirnar sem eru lausar ef maður fer á vef Reykjavíkurborgar eru í Gufunesi. Annað er ekki í boði. Þannig að þetta er villandi málflutningur.“ 

1.000 íbúðir í Reykjavík er allt of lítið þegar þarf 3.500 nýjar íbúðir á landsvísu

Sigurður segir það mikið áhyggjuefni hve fáar íbúðir hafi verið skipulagðar næstu árin. „Vegna þess að á hverju einasta ári, næstu árin, þá þarf 3.500 nýjar íbúðir inn á markaðinn á landsvísu, að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Reykjavíkurborg ætlar sér að skila eitt þúsund nýjum íbúðum inn á markaðinn á hverju ári. Það er allt of lítið.“

Minna eftir í veskinu út af stöðunni í Reykjavík

Þá kemur fram í fréttinni að þessi þróun hafi áhrif á alla landsmenn, Seðlabankinn hafi hækkað stýrivexti um 0.75 prósent á stuttu tíma með vísan skipulagsmál í Reykjavík og stöðuna á húsnæðismarkaðinum í borginni. „Við finnum það öll um hver einustu mánaðamót að það er minna eftir í veskinu út af stöðunni í Reykjavík,“ segir Sigurður í fréttinni.

Húsnæðismál skipta miklu máli í komandi kjarasamningum

Jafnframt kemur fram í fréttinni að staðan komi til með að hafa áhrif á kjaramál. „Forsvarsmenn verkalýðsfélaganna hafa talað um það síðustu daga og vikur að húsnæðismál munu skipta miklu máli í komandi kjarasamningum eftir ár. Þannig að það er mikið í húfi að það verði tekið á þessu máli af festu þannig að ekki fari illa.“

Áhugi og vilji hjá bönkunum að lána til íbúðauppbyggingar

Sigurður segir að það standi ekki á bönkunum líkt og hafi komið fram í máli borgarstjóra. „Ég hef það staðfest frá þremur af fjórum stóru bönkunum að þeir hafa mikinn áhuga og vilja til að lána til uppbyggingar af þessum toga. Svo það er ekkert til í þessum málflutningi borgarstjóra.“

Stöð 2 / Vísir, 11. október 2021.


Visir-11-10-2021