Fréttasafn



25. jún. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Virkja hugvitið enn frekar og setja meiri kraft í nýsköpun

„Þegar við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að skapa sextíu þúsund ný störf hér á landi fram til ársins 2050 líkt og kemur fram í grein aðalhagfræðings SI í tímaritinu þá er ekkert annað í boði en að virkja hugvitið enn frekar og setja meiri kraft í nýsköpun af hvaða toga sem er,“ segir Margrét Kristín Sigurðardóttir, samskiptastjóri SI og ritstjóri nýs tímarits Samtaka iðnaðarins um nýsköpun í viðtali á Vísi. 

Hún segir markmið útgáfunnar að vekja athygli á hvað hægt er að ná fram með nýsköpun, hvort heldur sem er í nýstofnuðum sprotafyrirtækjum eða fyrirtækjum sem hafa verið rekin í marga áratugi en í tímaritinu er rætt við ýmsa forsvarsmenn nýsköpunar, fjárfesta, frumkvöðla og forstjóra rótgróinna fyrirtækja og fleiri. „Það má segja að Ísland sé á nokkurskonar krossgötum og okkur sýnist að leiðin fram á við sé nýsköpun, því með því að styðja við umgjörð og hvata til nýsköpunar hvort heldur er í nýjum eða rótgrónum fyrirtækjum eflum við samkeppnishæfnina. Þó framtíðin sé óskrifað blað getum við haft heilmikil áhrif með þeim ákvörðunum sem við tökum núna og þess vegna finnst okkur mikilvægt að leggja tímaritið fram í umræðuna einmitt á þessum tímapunkti.“

Margrét segir að útgáfa tímaritsins sé liður í Ári nýsköpunar sem samtökin hófu í janúar og að ýmislegt sé enn framundan hjá SI í tilefni af því. Til að mynda verði afhending á Vaxtarsprotanum seinna í sumar þar sem sprotafyrirtæki sem ná mestri aukningu í veltu á milli ára fá viðurkenningu. „En einnig ætlum við að taka upp þráðinn á Iðnþingi samtakanna í september og fjalla þar um nýsköpun og stöðuna í efnahagslífinu.“

Á vef Vísis er hægt að lesa viðtalið við Margréti í heild sinni.