Vítahringur skapast á íbúðamarkaði
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Sýnar að ákveðinn vítahringur hafi skapast, hátt húsnæðisverð valdi háum vöxtum, háir vextir dragi úr uppbyggingu og þegar minna sé byggt hækki húsnæðisverð og hringurinn haldi þannig áfram. „Ég myndi segja að mestu tækifærin til að auka skilvirkni liggi hjá sveitarfélögunum. Í ferlinu hjá þeim, í áherslu í skipulaginu. Við sjáum til dæmis að stóraukin áhersla á þéttingu byggðar leiðir af sér íbúðir sem markaðurinn eða almenningur hefur kannski minni áhuga á, eða mæta ekki þörfum almennings.“
Í fréttinni kemur fram að samtökin hafi nýlega lagt könnun fyrir stjórnendur verktakafyrirtækja sem byggja íbúðir á eigin vegum fyrir almennan markað og samkvæmt niðurstöðum hennar sé gert ráð fyrir 17% fækkun íbúða í byggingu á næstu tólf mánuðum. Einnig kemur fram að gangi spáin eftir muni fjöldi íbúða í byggingu hafa fækkað um rúm 40% á þremur árum. Þetta gæti gert það að verkum að íbúðaskortur aukist á komandi árum. Sigurður segir niðurstöður könnunarinnar valda áhyggjum. „Verktakar nefna það sérstaklega, níutíu prósent verktaka benda á að færri íbúðir séu nú í byggingu vegna hás fjármagnskostnaðar. Þeir eru að halda að sér höndum út af því.“ Einnig nefnir Sigurður: „Stjórnvöld hækkuðu til dæmis virðisaukaskatt á byggingariðnað með því að lækka endurgreiðslu. Það hafði mikil áhrif. Yfir helmingur aðspurða segir að það hafi dregið úr uppbyggingu hjá þeirra fyrirtæki. Sveitarfélögin hafa verið að hækka gjöld, gatnagerðargjöld, innviðagjöld, byggingaréttargjöld, hvað sem þessi gjöld nú öll heita sem er búið að finna upp. Þau hafa hækkað verulega, sem er nú líka mjög undarlegt og er þvert á markmið og vilyrði sem sveitarfélög og stjórnvöld gáfu í tengslum við kjarasamninga.“
Vísir, 8. ágúst 2025.
Framkvæmdastjóri SI í samtali við fréttamann Sýnar.