Vodafone til liðs við Samtök iðnaðarins
Á dögunum gekk Vodafone til liðs við Samtök iðnaðarins en fyrirtækið er fyrsta fjarskiptafyrirtækið til að ganga í samtökin.
Undanfarið hefur meðlimum SI fjölgað mikið og eru þeir nú orðnir tæplega 1400 talsins. Samtök iðnaðarins eru stærstu fyrirtækjasamtök landsins, með þann megin tilgang að efla íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans.
„Innkoma Vodafone í Samtök iðnaðarins markar áhugaverð tímamót fyrir samtökin í heild sinni, því upplýsingatækni og fjarskipti hafa verið okkur hugleikin,“ segir Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og bætir við: „Fjarskiptageirinn á mikla samleið með öðrum tækni- og hugverkafyrirtækjum innan SI. Það er sóknarfæri fólgið í því að fleiri öflug fyrirtæki vilji vinna með okkur að því að efla iðn- og tæknimenntun, bæta nýsköpunarumhverfi og auka framleiðni. Fyrirtækið fer inn í hóp tækni- og hugverkafyrirtækja sem oft er flokkaður sem annar iðnaður. Þessi iðnaður aflar í dag um 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Lausnir tækni- og hugverkaiðnaðarins eru til hagsbóta í öllum atvinnugreinum og auka verðmætasköpun og gæði,“ segir Almar.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone tekur í sama streng: „Það er spennandi fyrir okkur hjá Vodafone að ganga til liðs við Samtök iðnaðarins. Vodafone veitir fjölbreytta þjónustu til fyrirtækja og einstaklinga sem félagið byggir á landsdekkandi innviðum. Í slíkri starfsemi er mikilvægt að vinna með öflugum aðila eins og Samtökum iðnaðarins að því markmiði að búa fjarskiptum, upplýsinga- og gagnaversiðnaðinum, sem best skilyrði til áframhaldandi vaxtar. Við teljum mikinn hag í þessu skrefi og hlökkum til að eiga gott samstarf um uppbyggingu og sameiginlegar áherslur þessara mikilvægu vaxtarbrodda íslensks atvinnulífs innan Samtaka iðnaðarins.“
Skapandi iðnaður í örum vexti
Elínrós Líndal er viðskiptastjóri SUT, Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins, en eitt af megin markmiðum SUT er að almenningur fái hlutdeild í upplýsingatækninni og skilji virði hennar. „Við viljum að horft verði til Íslands þar sem regluverk fyrir UT iðnaðinn er til fyrirmyndar og viljum beina sjónum að því að upplýsingatæknin er skapandi iðnaður í örum vexti. Forgangsverkefni stjórnar SUT á þessu ári var að fara yfir tilgang félagsins og framtíðarsýn. Að mæla umfang iðnaðarins, meðallaun sem og vöxt og arðsemi,“ segir Elínrós. „SUT stefnir að því að öll upplýsingatæknifyrirtæki landsins verði meðlimir starfsgreinahópsins og er innkoma Vodafone í hópinn til marks um árangur í þeirri stefnu,“ segir hún að lokum.
Þess má geta að SUT stendur fyrir mánaðarlegum stefnumótum í vetur undir heitinu Lunch code. Um er að ræða hádegisviðburði sem hugsaðir eru fyrir fyrirtæki innan SUT og aðra áhugasama um upplýsingatækni-iðnaðinn eða þau málefni sem rædd verða á fundinum hverju sinni. Fundirnir eru haldnir í Gamla bíó.