Fréttasafn



18. feb. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Vonbrigði að Bjarg flytji inn erlend hús og innréttingar

Í helgarútgáfu Morgunblaðsins er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um íbúðarbyggingar Bjargs íbúðafélags stofnað af ASÍ og BSRB og segir hann þá ákvörðun félagsins að flytja inn erlend hús og erlendar innréttingar vera Samtökum iðnaðarins mikil vonbrigði. „Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda og launþega að skapa sem flest störf og sem mest verðmæti á Íslandi. Þess vegna er það óskiljanlegt að launþegahreyfingin skuli ekki standa við bakið á sínum umbjóðendum, sem sagt launþegum á Íslandi, heldur leita frekar út fyrir landsteinana eftir þjónustu starfsfólks í löndum þar sem laun eru talsvert lægri en hér.“ 

Innréttingar frá IKEA og einingahús frá Lettlandi

Í fréttinni kemur fram að Bjarg hyggst nota innréttingar frá IKEA og mun flytja inn einingahús úr timbri sem framleidd eru í Lettlandi sem verða sett saman á Akranesi og á Kirkjusandi í Reykjavík. „Sérstaklega þykir okkur þetta skjóta skökku við á landsbyggðinni þar sem almennt séð er minna um byggingaverkefni og störf en á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Þegar skipt er við innlenda aðila skilar sér það aftur í hagkerfið

Í fréttinni segir Sigurður að benda megi líka á skattsporið. „Þegar skipt er við innlenda aðila skilar það sér aftur í hagkerfið. Það eru 62 fyrirtæki á sviði húsgagnaframleiðslu á Íslandi og rúmlega 5 þúsund á sviði byggingastarfsemi og mannvirkjagerðar. Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð ein og sér skilaði tæplega 200 milljörðum króna til íslensks þjóðarbús á árinu 2017 og um 2/3 þess runnu til hinna rúmlega 14.000 launþega og sjálfstætt starfandi í greininni. Þjóðhagslegt mikilvægi greinarinnar er því töluvert.“

Innlendir aðilar fái tækifæri til að bjóða í verk

Þá segir Sigurður að Bjarg gæti staðið sig betur í því að kanna til hlítar þá fjölmörgu möguleika sem þegar eru til staðar innanlands. „Þá er ég að vísa í útboð eða að gefa innlendum aðilum tækifæri í ríkara mæli til að bjóða í verk. Til dæmis eru fyrirtæki víða um land að sérhæfa sig í smíði á tilbúnum einingum. Slík fyrirtæki eru á Vesturlandi, Norðurlandi og Suðurlandi. Ég er sannfærður um að þau fyrirtæki geti vel annað stórum verkefnum ef þau fengju tækifæri til að bjóða í þau, auk þess sem slíkt gæti hvatt til nýsköpunar í byggingariðnaði en eftir því hefur verið kallað. Bjarg hefur hins vegar einhverra hluta vegna ekki leitað til þeirra allra með vel skilgreind verkefni í huga, heldur frekar leitað út fyrir landsteinana eins og dæmið uppi á Akranesi sýnir. Þar er Bjarg að reisa 33 íbúðir sem verða í innfluttum timburhúsum frá Lettlandi. Okkur finnst það skjóta skökku við að sambærilegir möguleikar sem eru í boði hér á landi skuli að minnsta kosti ekki vera kannaðir til hlítar og þannig sköpuð störf fyrir launþega hér á landi.“ 

Í niðurlagi fréttarinnar segir að haft hafi verið eftir Birni Traustasyni, framkvæmdastjóra Bjargs, í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag að innlendir aðilar hefðu sýnt lítinn áhuga á verkefninu uppi á Skaga og sagði að Bjarg mundu fagna áhuga innlendra aðila í framtíðinni. Um þetta segir Sigurður í frétt Morgunblaðsins að það sé sitthvað að bíða eftir frumkvæði frá innlendum aðilum og að leita til þeirra með vel skilgreind verkefni þó leitað hafi verið til innlendra aðila í einhverjum tilvikum. 

Morgunblaðið, 16. febrúar 2019.