Fréttasafn



5. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Vonbrigði að Reykjavíkurborg lækki ekki fasteignaskatta

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2022-26 er lagt til að fasteignaskattar borgarinnar á atvinnuhúsnæði haldast óbreyttir á milli ára 2021 og 2022 í 1,60%. Það eru mikil vonbrigði að mati Samtaka iðnaðarins.

Hæsta álagningarprósentan

Álagningarprósenta borgarinnar er sú hæsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Álagningarprósentan í Reykjavík var lækkuð úr lögbundnu hámarki, 1,65%, niður í 1,6% á milli áranna 2020 og 2021 en helst nú óbreytt. Á sama tíma og borgin hefur lækkað prósentuna um 0,05 prósentustig hafa sveitarstjórnir Kópavogs og Hafnarfjarðar mætt hærra fasteignamati með því að lækka skattprósentuna umtalsvert meira og létta þannig undir með fyrirtækjum. Frá 2017 hefur Hafnarfjarðarbær lækkað prósentuna úr 1,65% niður í 1,40% eða um 0,25 prósentustig og Kópavogsbær úr 1,62% niður í 1,47% eða 0,15 prósentustig.

Önnur hver króna í borgarsjóð

Vegna hárrar álagningarprósentu ásamt háu fasteignaverði og magni atvinnuhúsnæðis er Reykjavík með yfir helming heildartekna af fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði á landinu. Það þýðir að ríflega önnur hver króna sem innheimt er af fasteignasköttum á landsvísu rennur í borgarsjóð. Tæplega helmingur af heildarverðmæti atvinnuhúsnæðis á Íslandi er staðsett í Reykjavíkurborg.

Tæpur milljarður á ári í skattahækkun síðustu ár

Í áætlun borgarinnar er gert ráð fyrir því að hún innheimti 14,4 ma.kr. í fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði í ár en að það hækki og verði 15,2 ma.kr. á næsta ári. Hækkunin á milli ára nemur 5,65% eða 0,8 mö.kr. Skatturinn hefur þá hækkað um ríflega 5,7 ma.kr. frá árinu 2016. Þetta er tæplega milljarður að meðaltali á ári sem skatturinn er að hækka um á þessu tímabili. Reiknar borgin með því að þessi skattlagning skili henni 17,3 mö.kr. á lokaári áætlunarinnar, þ.e. á árinu 2026. 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI um fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði sem gefin var út 24. júní síðastliðinn.

Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í Reykjavík