Fréttasafn7. sep. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda

Vonbrigði hversu hægt miðar með hækkun endurgreiðsluhlutfalls

Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá True North og formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, segir í Fréttablaðinu að ýmis kvikmyndaverkefni séu að koma til landsins og að það sé afar ánægjulegt enda mikilvæg búbót fyrir íslenskt efnahagslíf. „Ísland er með orðspor um að hér gangi glíman við faraldurinn vel og það laðar verkefni að. Þá hefur samstarfið við sóttvarnayfirvöld verið afar gott en þar hefur verið hugsað í lausnum.“ 

Kristinn segir þó vonbrigði hversu hægt miðar varðandi auknar fjárfestingar í greininni, til dæmis með hækkun endurgreiðsluhlutfalls. Hann finni fyrir jákvæðum viðbrögðum frá stjórnvöldum en málunum miði hægt. „Þessi verkefni eru oft og tíðum gríðarlega umfangsmikil og margföldunaráhrif þeirra eru mikil. Til marks um það komu fjögur erlend verkefni til Íslands á vegum True North undir lok síðasta árs. Þau veltu þremur milljörðum hérlendis á meðan á upptökunum stóð og um milljarður af þeirri upphæð rann beint til ferðaþjónustunnar í formi gistingar, tækjaleigu og veitinga. Við teljum að það blasi við hversu mikilvægt sé að laða slík verkefni til Íslands þegar ástandið er með þessum hætti í ferðaþjónustunni.“

Í fréttinni kemur fram að eitt af verkefnunum sem tekið var upp var myndin The Midnight Sky, sem George Clooney leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í, og bendir Kristinn á að oft gleymist að leikarar verkefnanna greiði skatta hérlendis þá daga sem vinnan standi yfir og það gerði Clooney samviskusamlega.

Hækki endurgreiðsluhlutfallið í 35%

Þá segir í fréttinni að samkvæmt lögum fái erlendir kvikmyndaframleiðendur 25% af framleiðslukostnaði endurgreiddan og að það vilji íslenskir kvikmyndaframleiðendur hækka upp í 35% sem þekkist í öðrum löndum. „Það er að mínu mati frábær fjárfesting en ekki styrkur. Við höfum talað fyrir því lengi að íslensk stjórnvöld fjárfesti í iðnaðinum með því að hækka endurgreiðsluhlutfallið. Við töldum það sérstaklega mikilvægt á meðan kórónaveirufaraldurinn gengi yfir, enda er þessi bransi að breytast hratt og mörg tækifæri í boði. Við erum í harðri samkeppni við lönd í kringum okkur sem eru með hærra hlutfall.“

Kristinn nefnir sem dæmi Írland sem bjóði upp á 35% endurgreiðsluhlutfall og hafi verið vettvangur gríðarstórra kvikmyndaverkefna undanfarin ár. „Þar voru Game of Thrones-þættirnir teknir upp að stóru leyti, en aðeins lítill hluti hérlendis. Lág endurgreiðsla hér gerir það að verkum að hingað er komið með kvikmyndaverkefnin í skamma stund, tekið upp það sem þarf og meirihlutinn svo kláraður annars staðar.“ 

Bylting ef endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað

Einnig kemur fram í fréttinni að mikil ásókn sé í kvikmyndaver um allan heim og því sé afar spennandi tækifæri að ráðast í slíkar fjárfestingar hérlendis en það haldist þó í hendur við endurgreiðsluna. „Við erum með aðila sem vilja ráðast í slíkar fjárfestingar hérlendis strax ef endurgreiðslan er hækkuð. Það væri bylting fyrir okkur því að þá getum við fengið verkefni hingað til lengri tíma eins og gert er á Írlandi, frekar en að menn reyni að vera í eins stuttan tíma og hægt er hérlendis.“

Fréttablaðið, 5. september 2020.