Fréttasafn



23. apr. 2019 Almennar fréttir Menntun

Vor starfsnámsins er runnið upp

Vor starfsnámsins er runnið upp, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni Starfsnám opnar dyr. Hann segir að mikil tækifæri bíði þeirra sem ljúki starfs- og tækninámi. Atvinnulífið bíði starfskrafta þeirra en þorri þeirra félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem vilji bæta við sig starfsfólki leiti að starfsmenntuðu fólki.  

Sigurður segir að starfsnámið opni dyr út í heim en það sé viðurkennt innan Evrópu og veiti því útskrifuðum alþjóðlegt gjaldgengi. Þá sé einfalt að fara í frekara nám og háskólamenntað fólk með starfsnám að baki sé mjög eftirsótt á vinnumarkaði. Möguleikar starfsnámsins séu nær óþrjótandi enda séu um 100 starfsnámsbrautir í boði í framhaldsskólum landsins.

Mikil tíðindi í stefnumörkun stjórnvalda

Jafnframt segir Sigurður í greininni að stefna stjórnvalda birtist með skýrum hætti í fjármálaáætlun sem nú sé til umfjöllunar á Alþingi. Efst á blaði varðandi framhaldsskólastigið sé að fjölga þeim sem ljúka starfs- og tækninámi. Hann segir þetta mikil tíðindi því bóknámi hafi hingað til verið gert hærra undir höfði en starfsnámi, einhverra hluta vegna. Þá segir hann að einhver bestu meðmæli með þessari stefnumörkun stjórnvalda séu mótmæli einstaka skólamanna í bóknámsskólum. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.