Fréttasafn



30. jún. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Vöxtur hugverkaiðnaðar eykur stöðugleika og framleiðni

Fórða útflutningsstoð Íslands, hugverkaiðnaður, hefur alla burði til þess að verða sú verðmætasta í lok þessa áratugar. Við höfum það í höndum okkar hvernig mál þróast en skilvirkt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi mun hafa mikið um framhaldið að segja og því hefur stefna stjórnvalda og lagasetning mikil áhrif. Þetta segja Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, meðal annars í grein sinni sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar með yfirskriftinni Vöxtur hugverkaiðnaðar eykur stöðugleika og framleiðni. Þau segja jafnframt að Vöxtur útflutningstekna hugverkaiðnaðar sé ekki tilviljun heldur afrakstur stórhuga frumkvöðla og stefnumörkunar stjórnvalda sem hafi með skattahvötum ýtt undir fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun.

Í grein þeirra kemur meðal annars fram að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi numið 310 milljörðum króna árið 2024 og hafi þær ríflega fimmfaldast frá því árið 2009. Þau segja að hugverkaiðnaður sé fjórða stoð útflutnings á Íslandi en útflutningstekjur greinarinnar hafi numið 16% af heildarútflutningstekjum Íslands á síðasta ári. Vöxtur hugverkaiðnaðar feli í sér aukna verðmætasköpun, aukinn efnahagslegan stöðugleika og fleiri háframleiðnistörf. Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun sé undirstaða hugverkaiðnaðar en hugverk og sérhæfður mannauður séu helsta auðlindir greinarinnar.

Á vef Vísbendingar er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísbending, 27. júní 2025.

Visbending-27-06-2025