Fréttasafn17. nóv. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Vöxtur hugverkaiðnaðar styður við bætt lánskjör

Á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í mars síðastliðnum kom til tals hvernig öflugur iðnaður gæti stutt við bætt lánskjör landsmanna. Með vexti hugverkaiðnaðar hefur orðið til fjórða stoðin í útflutningi íslenska hagkerfisins, stoð sem gæti orðið sú verðmætasta áður en áratugurinn er á enda. Nú eru vísbendingar um bætt erlend lánskjör eftir að alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hækkaði lánshæfiseinkunn Íslands úr A í A+ í síðustu viku.

Í kjölfarið hækkaði félagið lánshæfismat Landsvirkjunar um einn flokk og í dag breytti fyrirtækið síðan horfum varðandi lánshæfiseinkunn Íslandsbanka og Landsbanka úr stöðugum í jákvæðar og horfum varðandi lánshæfiseinkunn Arion banka úr neikvæðum í stöðugar. Að mati Samtaka iðnaðarins ætti hærri lánshæfiseinkunn Íslands ásamt bættum horfum viðskiptabankanna að skila sér í bættum lánskjörum þeirra. Það mun síðan aftur birtast í bættum lánskjörum annarra innlendra aðila.

Meðal röksemda fyrir þessum jákvæðu breytingum segir S&P gera ráð fyrir að innlend eftirspurn taki við sem lykildrifkraftur vaxtar á næsta ári stutt af áframhaldandi stækkun nýrra atvinnugreina á borð við tækni- og hugverkaiðnað.

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafa tvöfaldast á fimm árum og námu árið 2022 um 240 milljörðum kr. Útflutningstekjur greinarinnar jukust um tæplega 17% á fyrri helmingi þessa árs og stefnir í að þær verði 280 milljarðar kr. á árinu. Gangi það eftir hefur greinin þrefaldað útflutningsverðmæti sitt á einum áratug.

Í þessu sambandi má rifja upp orð Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, sem sagði á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins í mars síðastliðnum að það væri þjóðhagslega mikilvægt að byggja upp blómlegan hugverkadrifinn iðnað á Íslandi. „Hefur t.d. verið á það bent að miðað við stöðu ríkisfjármála á Íslandi og gjaldeyrisforða þjóðarinnar þá ætti lánshæfi Íslands að vera a.m.k. einu þrepi og jafnvel tveimur þrepum hærra. Meðal þess sem heldur matinu niðri er það viðhorf matsfyrirtækjanna að hagkerfi þessa fámenna lands sé of einsleitt – stoðirnar of fáar,“ sagði hann á þinginu. „Þetta sjáum við núna breytast, og þessa sögu þarf að segja umheiminum, og minna um leið á það að við eigum gjaldmiðil sem er studdur af endurnýjanlegri orku sem við fáum úr fallvötnum okkar og jarðvarma, og fiskinum sem við veiðum með sjálfbærum hætti. Ef tekið er tillit til þessara þátta er eðlilegt að Ísland njóti sama lánshæfis og önnur norræn ríki.“ 

Lanskjor