Vöxtur hugverkaiðnaðar vekur athygli utan landsteinanna
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, var meðal aðalfyrirlesara á ársfundi Vinnuhússins í Færeyjum sem fór fram í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn 20. september sl. Yfirskrift erindis Sigríðar var „How innovation and IT infrastructure will determine countries future competitiveness“.
Erindi Sigríðar vakti athygli fundargesta en í erindi sínu kom hún meðal annars inn á hvernig hugverkaiðnaður á Íslandi hefði verið í stöðugum vexti undanfarin ár og hvernig skattalegir hvatar til rannsókna og þróunar hafa ýtt undir vöxtinn. Hún sagði meðal annars frá því að skattahvatarnir sem stjórnvöld hefðu hækkað á árinu 2018 og 2020 hefðu skilað miklum árangri í frekari fjárfestingu einkaaðila í rannsóknum og þróun. Þá kom fram í erindi Sigríðar að áætlað væri að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar á Íslandi mundi þrefaldast á árabilinu 2023 til 2027 og ef áætlanir gangi eftir gæti hugverkaiðnaður þar með orðið stærsta útflutningsgrein Íslands árið 2030. Hún sagði hugverkaiðnað á Íslandi fjölbreyttan og samanstæði meðal annars af hátækni-iðnaði, lyfja- og heilsuiðnaði, kvikmyndaiðnaði, upplýsingatækni-iðnaði og leikjaiðnaði.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigríðar frá fundinum.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.
Leikarinn Kjartan Hansen var ráðstefnustjóri dagsins og ræðir hér við Sigríði að loknu erindi hennar.