Fréttasafn



2. des. 2025 Almennar fréttir

VR og SI hvetja Seðlabankann til að slaka á lánþegaskilyrðum

Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifa sameiginlega grein á Vísi þar sem þau hvetja Seðlabankann til að létta enn frekar á lánþegaskilyrðum fyrstu kaupenda til þess að fleiri eigi þess kost að eignast húsnæði á meðan beðið er eftir útfærslum á fyrsta húsnæðispakkanum og mótun á öðrum húsnæðispakka stendur yfir. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans fundar á morgun og því hvetja þau Seðlabankann til að stíga þetta skref. Þau segja að slökun á lánþegaskilyrðum sé ekki töfralausn en hún sé ein af þeim fjölmörgu aðgerðum sem óhjákvæmilega þurfi að ráðast í til að ná langþráðum stöðugleika í húsnæðisuppbyggingu og tryggja að yngri kynslóðir eigi jöfn tækifæri til að eignast eigið húsnæði.

Húsnæðismál upp úr farvegi átaksverkefna og skammtímaðgerða

Halla og Sigurður segja í greininni að í  hvert sinn sem nýjar verðbólgutölur birtast eða ákvörðun er tekin um stýrivexti verður hið augljósa enn augljósara: húsnæðismál eru stærsti áhrifaþáttur efnahagsmála. Þau valdi miklum sveiflum í íslensku efnahagslífi sem hafi í för með sér óvissu og kostnað, jafnt fyrir launafólk sem þarfnast húsnæðis og fyrirtækin sem byggja. Þaug segja að þess vegna verði að hefja húsnæðismál upp úr farvegi átaksverkefna og skammtímaaðgerða og notast við langtímastefnumótun sem byggi á góðum og traustum gögnum.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 2. desember 2025 (greinin).

Vísir, 2. desember 2025 (frétt).