Fréttasafn24. ágú. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

X-Hugvit komið í loftið

Nýtt verkefni Hugverkaráðs SI var sett í loftið í dag á fjölmennum fundi í Iðnó. Um er að ræða hreyfiafl til að hafa áhrif á umræðuna í aðdraganda alþingiskosninganna sem fram fara í október. Á fundinum var hugmyndafræðin kynnt og nýr vefur www.xhugvit.is opnaður. Einnig var opnuð Facebook-síða verkefnisins: https://www.facebook.com/xHugvit/

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, fór yfir aðdraganda verkefnisins og mikilvægi þátttöku sem flestra. Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP og formaður Hugverkaráðs SI, sagði frá hugmyndunum að baki verkefninu þar sem meginmarkmiðið er að skapa umhverfi fyrir aukna verðmætasköpun og meiri lífsgæði á Íslandi. Hilmar Veigar sagði stefnt að því að málefnin kæmust inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ragnheiður H. Magnúsdóttir, hjá Marel og varaformaður Hugverkaráðs SI, fór yfir ýmsar tölulega staðreyndir sem sýna að samsetning vaxtar í útflutningstekjum hefur verið frábrugðin markmiðum sem hafa komið fram í skýrslum frá McKinsey. Til að ná þúsund milljarða króna áskorun í útflutningi árið 2030 þarf meðal annars að nýta vel hugvit. Elínrós Líndal, kosningastjóri X-Hugvit, sagði að um grasrótarhreyfingu væri að ræða sem ætti að eflast eftir því sem liði á verkefnið. Högni í Hjaltalín lagði til tóna með sínum einstaka hætti bæði í upphafi og endi fundarins.

Á vefsíðunni eru kynnt níu málefni en áformað er að fleiri hugmyndir bætist við eftir því sem fleiri taka þátt og leggja til nýjar hugmyndir um hvernig hugvit getur vaxið á Íslandi. Málefnin eru:

  • Nýsköpun í öllum greinum
  • Þróa nýja þekkingu og skapa aukin verðmæti
  • Fjölbreytt þekking erlendra sérfræðinga í landinu
  • Betri lausnir í heilbrigðis- og velferðarkerfinu
  • Skattahvati til hlutabréfakaupa
  • Fyrirmyndarviðskiptaumhverfi á Íslandi
  • Tækni og tölvumenntun á öllum skólastigum
  • Meiri áhersla á skapandi hagkerfi
  • Vel tengt Ísland

Hugverkaráð SI var stofnað með það að markmiði að gera Ísland ákjósanlegan stað fyrir íslenskt hugvit. Hugverkaráð SI er skipað formönnum og varaformönnum allra starfsgreinahópa á hugverkasviði samtakanna. Á meðal þeirra eru aðilar innan IGI (Icelandic Game Industry), SUT (Samtök upplýsingatæknifyrirtækja), DCI (Samtök gagnavera), SHI (Samtök íslenskra heilsufyrirtækja), SÍK (Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda), SSP (Samtök sprotafyrirtækja) og SÍL (Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja). Hönnunarmiðstöð er einnig þátttakandi í verkefninu ásamt Bandalagi íslenskra listamanna og Ský (Skýrslutæknifélag Íslands).