Fréttasafn



3. apr. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Yfir 20 aðilar sýna í Hofi á Degi byggingariðnaðarins

Á vef Vikudags er sagt frá Degi byggingariðnaðarins á Norðurlandi sem haldinn verður 14. apríl en það eru Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Samtök iðnaðarins sem standa að deginum. Á deginum verður sýning í Menningarhúsinu Hofi og opin hús á byggingarstöðum og verkstæðum á Akureyri og víðar í landshlutanum milli klukkan 11 og 16. Það verða yfir 20 aðilar sem verða með sýningarbása Í Hofi og þar verður einnig sett upp sérstök upplýsingamiðstöð. Sveitarfélög á Norðurlandi munu jafnframt kynna hvað er framundan í lóðaúthlutun.

Í tengslum við daginn verður gefið út frétta- og kynningablað tileinkað deginum. Blaðið sem kemur út í 13 þúsund eintökum verður dreift inn á heimili og fyrirtæki á Norðurlandi. Þá munu Samtök iðnaðarins halda opinn fund þar sem kynnt verður talning íbúðarhúsnæðis í byggingu og horfur á íbúðamarkaði. Fundur SI fer fram í Hofi 14. apríl kl.10.30-12.00. 

Á vef Vikudags er hægt að lesa viðtöl við Davíð Rúnar Gunnarsson, viðburðarstjóra hjá Viðburðarstofu Norðurlands sem heldur utan um sýninguna í Hofi, Þórarinn Val Árnason, formann Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi, og Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA).