Fréttasafn



21. nóv. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa Starfsumhverfi

Yfirlýsing frá stjórn Samtaka arkitektastofa

Samtök arkitektastofa, SAMARK, hafa gefið út eftirfarandi yfirlýsingu:

Samtök arkitektastofa gera athugasemdir við afstöðu forstjóra Framkvæmdasýslu - Ríkiseigna, Óskars Jósefssonar, sem kom fram í viðtali við hann á RÚV 18. nóvember sl. Þar notar hann orðalagið „mannvirkjalegt listaverk“ og telur slíkt ekki við hæfi við gerð hjúkrunarheimila. Hingað til hafa orðin „arkitektúr“ eða „byggingalist“ verið notuð.

Orðræðan sem birtist í viðtalinu ber þess merki að forstjórinn líti á arkitektúr sem aukaatriði inn í jöfnuna þegar kemur að byggingu mannvirkja. Það verður að vera hægt að gera þá kröfu til forstjóra FSRE að hann skilji að arkitektúr er heildstæð hugsun niður í grunnskipulag mannvirkis, en ekki valkvæð yfirborðsáferð sem skreytt er með í lokin.

Sú skoðun forstjórans að hönnunarsamkeppnir leiði sjálfkrafa til aukins kostnaðar á ekki heldur við rök að styðjast. Í kjölfar hönnunarsamkeppni fer fram hönnun sem byggir á forsendum og kröfum sem verkkaupi setur fram, sem væru þær sömu óháð því hvort um hönnunarsamkeppni eða annað útboðsform væri að ræða. Það er ávallt leið til að tryggja gæði og arkitektúr á sama tíma og ráðdeild er höfð með í för.

Að mati SAMARK er óásættanlegt að forstjóri þeirrar ríkisstofnunar sem annast opinberar framkvæmdir telji ekki þörf á arkitektúr þegar kemur að húsnæði fyrir okkar elstu landsmenn. Hingað til hefur Íslendingum, og ekki síst þeim kynslóðum sem hjúkrunarheimilin nú hýsa, tekist að byggja fyrir samfélag sitt arkitektúr af metnaði, þrátt fyrir takmarkaða auðlegð. Það að ein auðugasta þjóð heims geti svo ekki boðið þeim upp á slíkt í ævikvöldinu eru sérkennileg skilaboð. Fjölmörg dæmi sanna að góður arkitektúr bætir lífsgæði fólks, ekki síst á hjúkrunarheimilum þar sem viðvera þeirra sem þar búa er jafnan mikil. Árangur þessa hefur t.a.m. verið mældur í Danmörku.


Viðskiptablaðið , 21. nóvember 2024.

RÚV, 21. nóvember 2024.

mbl.is, 21. nóvember 2024.