Ýmislegt jákvætt í húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar
„Það er ýmislegt jákvætt í þessum pakka eins og að fólki gefst kostur á að nýta séreignarsparnað til að komast fyrr inn á fasteignamarkaðinn,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um fyrsta húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í gær.
Þarf að horfa til lóðaframboðs og skipulagsmála
Í fréttinni kemur fram að Sigurður telur áhyggjuefni að ekki skuli sjást meira af þvi sem snúi að framboði lóða en segist vongóður um að það komi fram í næsta pakka. „Ég leyfi mér að vera bjartsýnn um að í öðrum pakka verði horft sérstaklega á framboðshliðina. Þar þarf að horfa til lóðaframboðs og skipulagsmála og ríkið þarf á einn eða annan hátt að fara í samstarf við sveitarfélögin um þau mál sérstaklega. Þar er framboð lóða helsti flöskuhálsinn hvað varðar uppbyggingu á nýjum íbúðum auk þeirra gjalda sem sveitarfélögin innheimta vegna uppbyggingar, sem hafa stórhækkað á undanförnum árum. Því til viðbótar höfum við séð skilmála, t.d. í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum eftir atvikum, sem eru verulega íþyngjandi.“
Höggvið á hnútinn í húsnæðislánum
Sigurður nefnir í fréttinni sem dæmi að 45 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði á jarðhæð standi ónotaðir, kvaðir séu um að tiltekinn hluti íbúða sé leiguíbúðir og tiltekið hlutfall keypt af Félagsbústöðum á niðurgreiddu verði sem aðrir kaupendur þurfi þá að standa straum af. Hann segir tímabært að ríkisstjórnin setji þessi mál á oddinn og komi með útspil á þessum tímapunkti. „Annað sem er jákvætt að sjá þarna er að ríkisstjórnin ætlar að höggva á hnútinn þegar kemur að húsnæðislánunum, en um þessar mundir ríkir mikil óvissa eftir dóm Hæstaréttar í máli Íslandsbanka og Neytendasamtakanna. Lánveitendur hafa haldið að sér höndum og dregið úr framboði lána og því er mikilvægt að ríkisstjórnin gefi út leiðbeiningar í stað þess að dómstólum sé falið að gera það með tilheyrandi töfum, sem er óviðunandi fyrir alla.“
Morgunblaðið / mbl.is, 30. október 2025.


