Fréttasafn15. mar. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Yngri ráðgjafar boða til fundar um betri kostnaðaráætlanir

Yngri ráðgjafar innan Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, standa fyrir fundi um gerð kostnaðaráætlana fimmtudaginn 21. mars kl. 16.00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 1. hæð. Á fundinum verður rætt um hvað kostnaðaráætlun er, ný verkfæri og aðferðir sem notast er við og mikilvægi þess að fylgja áætlunum eftir.

Fundarstjóri er Arnar Kári Hallgrímsson, formaður Yngri ráðgjafa.

Dagskrá

  • Hvað er kostnaðaráætlun? - Arnar Kári Hallgrímsson, Efla verkfræðistofa og formaður Yngri ráðgjafa FRV
  • BIM - Aukin kostnaðarmeðvitund - Hjörtur Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá VSB verkfræðistofu og varaformaður BIM Ísland

Notkun BIM (upplýsingalíkön mannvirkja) hefur rutt sér til rúms við hönnun mannvirkja á Íslandi og hefur þar með opnast gátt að aukinni hagnýtingu BIM á ýmsum sviðum mannvirkjagerðar. BIM býður upp á aukna kostnaðarmeðvitund í hönnun og lifandi kostnaðaráætlanir sem þróast samhliða verkefni í mótun. Þó eru ýmsar hindranir á veginum að aukinni sjálfvirkni, staðla þarf vinnubrögð og aukinnar einsleitni er þörf í líkönum.

  • Í upphafi skal endinn skoða - Kostnaðaráætlanir og kostnaðargát - Elísabet Rúnarsdóttir og Helga Kristín Magnúsdóttir, sérfræðingar í kostnaðargát hjá Mannviti

Í upphafi verkefnis er mikilvægt að gera kostnaðar- og tímaáætlun, en einnig er mikilvægt að spyrja viðskiptavininn hvað sé markmið hans með verkefninu og hvernig hann vilji að haldið sé utan um kostnað. Mannvit útbýr kostnaðaráætlanir úr kostnaðarbanka sem inniheldur raunupplýsingar og því nokkuð nákvæmur, ítarlegri kostnaðarupplýsingar fást síðan með verðfyrirspurnum og tilboðum. Áætlunum er skipt upp í verkþætti og það er grundvallaratriði að því sé flaggað strax ef vísbendingar eru um að verkefnið sé á leiðinni út af sporinu. Í kostnaðargát hjá Mannviti er haldið utan um kostnaðaráætlun, áfallinn kostnað, áætlaðan lokakostnað, unnið virði, breytingar og ekki síst hið ófyrirséða. Í verkfærakistunni er m.a. forrit sem heldur utan um alla þessa þætti og hentar það fyrir lítil, miðlungs og stór verkefni. 

  • LCC greiningar íþróttamannvirkja - Eiríkur Steinn Búason og Gunnar Kristjánsson, verkefnisstjórar hjá Verkís.

Með því að útfæra LCC greiningu strax í kjölfar þess að fyrsta kostnaðaráætlunin liggur fyrir, er hægt að skoða og meta valkosti út frá því hvaða áhrif valkostirnir hafa á rekstur mannvirkis. Einnig nýtist greiningin til þess að skoða strax í upphafi hver verður rekstrarkostnaðurinn á mannvirkinu og hvernig hann skiptist á milli rekstrarþátta og þá hvort hann sé innan fjárhagsmarka eigandans.

  • Sjónarmið verktaka - Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV

Allir sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum FRV eru velkomnir og boðið verður upp á léttar veitingar.

Hér er hægt að skrá sig á fundinn.