24 útskrifaðir rafvirkjameistarar frá Rafmennt
Rafmennt útskrifaði 24 rafvirkjameistara föstudaginn 15. desember. Af því tilefni efndi Rafmennt til viðburðar þar sem útskrift nemendanna var fagnað. Kristján Þórður Snæbjarnason, formaður RSÍ,og Pétur Hákon Halldórsson, formaður FLR og varaformaður SART, fluttu erindi við athöfnina. Í erindum þeirra kom fram hvatning til fagmennsku og ábyrgðar í störfum.
Pétur sagði meðal annars í sínu erindi að þetta væru mikil tímamót og þó framtíð þeirra sem væru að útskrifast sem rafvirkjameistarar væri enn óskrifuð væri hún spennandi. Pétur sagði að félagsmenn í Samtökum rafverktaka, SART, væru yfir 200 talsins og í tilefni af þessum degi fengju útskrifaðir afhend gjafabréf frá SART sem væri 1 árs aðild að samtökunum. Hann sagði að fagleg og ekki síst persónuleg ábyrgð rafverktakans væri mikil og skyldi ekki vanmeta né gleyma. Hann sagði hlutverk SART vera að veita félagsmönnum sínum margvíslega þjónustu og ráðgjöf um hvað eina sem snúi að atvinnurekstri og að vera málsvari þeirra gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Þá sagði hann að SART væru fyrst og fremst hagsmunasamtök þar sem til dæmis væri staðin vakt um réttindi rafverktaka en að hart væri sótt að lögverndun iðngreina og að glíman væri sífellt að harðna við ráðuneyti vegna þessa og væri það miður.
Pétur Hákon Halldórsson, formaður FLR og varaformaður SART.