Fréttasafn



17. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki

60% iðnfyrirtækja vænta samdráttar vegna veirunnar

Stjórnendur þriðjungs íslenskra iðnfyrirtækja segja að COVID-19 veiran hafi dregið úr spurn eftir þeirra vörum og/eða þjónustu. Segja 60% þeirra að þeir reikni með samdrætti af völdum veirunnar á næstunni. Kemur þetta fram í spurningakönnun sem gerð var meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins 12.-13. mars sl. Niðurstöðurnar benda til þess að áhrif veirunnar á starfsemi íslenskra iðnfyrirtækja séu og munu verða umtalsverð.

Covid-19-2-

Áhrifin víðtæk þar sem iðnaður er umfangsmikill

Í íslenskum iðnaði voru í fyrra eitt af hverjum fimm störfum í hagkerfinu, greinin stóð á bakvið 22% landsframleiðslunnar og 30% veltu allra fyrirtækja í landinu. Með áhrifum sínum á iðnfyrirtækin benda niðurstöður könnunarinnar því til þess að áhrif veirunnar á iðnfyrirtækin munu hafa umtalsverð áhrif á íslenskt efnahagslíf.

Mestra áhrifa farið að gæta í framleiðsluiðnaði

Í framleiðsluiðnaði er áhrifanna af COVID-19 helst farið að gæta samkvæmt ofangreindri könnun. 43% stjórnenda iðnfyrirtækja í framleiðslu segja að COVID-19 hafi dregið úr spurn eftir vörum og/eða þjónustu þeirra fyrirtækja. Í hugverkaiðnaði er hlutfallið 25% og í mannvirkjagerð 19%.

Covid-19-1-

Stjórnendur vænta mikilla áhrifa af völdum COVID-19 á eftirspurn

Augljóst er að áhrif COVID-19 veirunnar á iðnfyrirtækin eiga eftir að koma fram á næstunni. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vænta 70% fyrirtækja í hugverkaiðnaði samdráttar af völdum veirunnar á næstunni, 59% í framleiðsluiðnaði og 50% í mannvirkjagerð. Þetta eru há hlutföll sem endurspegla að stjórnendur iðnfyrirtækja vænta víðtækra áhrifa af völdum veirunnar á starfsemi þeirra fyrirtækja og þar með umtalsverðra áhrifa á hagkerfið frá þeirri átt.