Fréttasafn



2. nóv. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Menntun

600-1.000 vísað frá þegar fleiri þurfa að ljúka iðnnámi

Þrátt fyrir metfjölda brautskráðra úr iðnnámi (iðn-, verk- og starfsnám) dugir það ekki til ef mæta á þeim mikla skorti á iðnmenntuðum á íslenskum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI sem gefin er út í dag í tengslum við Mannvirkjaþing SI sem fer fram í Iðunni í Vatnagörðum 20 kl. 15-18.

Í greiningunni kemur fram að met hafi verið slegið á síðasta skólaári þegar 1.189 voru útskrifaðir. Á síðustu fimm árum hafi brautskráðum úr iðnnámi fjölgað um 70%. Samtök iðnaðarins telja þessa þróun afar ánægjulega þar sem fjölgun iðnmenntaðra er lykillinn að því að efla samkeppnishæfni Íslands.

Eftirfarandi er meðal þess sem kemur fram í greiningunni:

  • Aukin vakning hefur átt sér stað um þá möguleika sem felast í iðnnámi sem hefur skilað sér í aukinni aðsókn í námið. Síðastliðið haust sóttu 2.460 um iðnnám. Aðsókn í námið var þá mikil í sögulegu ljósi og sú þriðja mesta sem mælst hefur á einu hausti frá upphafi. Tölurnar sýna þann mikla áhuga sem er á iðnnámi sem er fagnaðarefni að mati SI.
  • Samhliða aukinni aðsókn í iðnnám er fjölmörgum umsóknum hafnað ár hvert og hefur hlutfall þeirra sem er hafnað aukist. Skortur er á fjármagni til skólanna sem verða því að synja áhugasömum nemendum. Af heildarfjölda þeirra sem sóttu um iðnnám síðastliðið haust var 556 hafnað eða hartnær fjórðungi umsækjenda. Undanfarin ár hefur um 600-1.000 nemendum verið vísað frá iðnnámi samanlagt á haust- og vorönn vegna þess að iðnnámsskólarnir geta ekki tekið við fleiri nemendum. Að mati SI er þetta mjög neikvæð þróun.
  • Í könnun meðal forsvarsmanna iðnfyrirtækja fyrir Iðnþing SI fyrr á þessu ári kom fram að það er skortur á starfsfólki í 48% iðnfyrirtækja. Af þeim segja 56% að það skorti iðnmenntað starfsfólk sem er talsvert hærra hlutfall en mælist gagnvart annarri menntun.
  • Ljóst er að skortur á vinnuafli hefur verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hefur verið fórnað vegna þess að framboð vinnuafls með rétta færni og menntun hefur ekki verið nægjanlegt.
  • Mun lægra hlutfall ungmenna hér á landi er í iðnnámi en almennt í ríkjum OECD. Hér á landi er hlutfallið 31% en 44% að jafnaði í ríkjum OECD.
  • Lægra hlutfall nemenda hérlendis lýkur iðnnámi á tilsettum tíma Aðeins 40% af nemendum í iðnnámi ljúka námi á tilsettum tíma en meðaltal OECD er 62%.
  • Útgjöld til iðnnáms hér a landi eru hlutfallslega lægri en gengur og gerist á Norðurlöndunum og meðal ríkja OECD. Af útgjöldum til menntamála fara um 7% til iðnnáms samanborið við 10% að jafnaði á Norðurlöndunum og einnig 10% í ríkjum OECD.
  • Menntakerfið mætir illa færniþörf iðnfyrirtækja. Í könnun sem gerð var fyrr á þessu ári meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja var spurt að því hversu vel íslenskt menntakerfi komi til með að mæta færniþörf fyrirtækis viðkomandi litið til næstu fimm ára. 42% stjórnenda iðnfyrirtækja segja illa og ekki nema 25% segja vel.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.

Fjoldi-umsokna-og-samthykktra-i-idnnam

Hlutfall-framhaldsskolanema-i-starfsnami
Morgunblaðið, 2. nóvember 2023.

mbl.is , 2. nóvember 2023.

Vísir, 2. nóvember 2023.

Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, 2. nóvember 2023.