90% telja íslenskan iðnað hafa jákvæð áhrif á samfélagið
90% landsmanna telja að íslenskur iðnaður hafi jákvæð áhrif á samfélagið í heild. Aðeins 3% telja að íslenskur iðnaður hafi neikvæð áhrif. Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun sem Gallup framkvæmdi meðal landsmanna að beiðni Samtaka iðnaðarins (SI).
Í sömu könnun Gallup kemur fram að 86% svarenda eru jákvæðir gagnvart iðnaði á Íslandi en aðeins 3% neikvæðir.
Hversu jákvæð eða neikvæð áhrif telur þú að íslenskur iðnaður hafi á samfélagið í heild?

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Þessi afgerandi mikla jákvæðni landsmanna í garð íslensks iðnaðar er mikil viðurkenning fyrir þau fjölmörgu og öflugu iðnfyrirtæki sem starfa um land allt og þau 52 þúsund sem starfa í iðnaði á Íslandi. Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að fá það staðfest að níu af hverjum tíu landsmanna telji að iðnaðurinn hafi jákvæð áhrif á samfélagið okkar en það er einmitt það sem þetta snýst um. Í öflugum iðnfyrirtækjum um land allt eru sköpuð verðmæti sem efla íslenskt samfélag á margvíslegan hátt. Hlutverk okkar í Samtökum iðnaðarins er að „efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í þágu samfélagsins alls“ og vorum við því ánægð að fá þessar niðurstöður. Iðnaðurinn starfar í raun í þágu samfélagsins alla daga og á svo fjölbreyttum sviðum, hvort sem er í mannvirkjagerð, framleiðsluiðnaði eða hugverkaiðnaði. Við höfum lagt okkur fram um að styðja okkar aðildarfyrirtæki til að sækja tækifærin og taka forystu á tímum breytinga og við hlökkum til að halda þeirri vinnu áfram enda eru tækifæri íslensks iðnaðar til vaxtar og aukins framlags til samfélagsins nánast óþrjótandi ef rétt er á málum haldið.“
Almennt séð, hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart iðnaði á Íslandi?

Iðnaður er stærsta atvinnugreinin
Íslenskur iðnaður er stærsta atvinnugreinin á Íslandi og ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. Greinin er fjölþætt og snertir nær alla þætti hagkerfisins. Innan iðnaðar starfar fjölbreytt flóra af fyrirtækjum sem eru samofin öllum sviðum efnahagslífsins með einum eða öðrum hætti. Fyrirtækin eru bæði lítil og stór, í rótgrónum og nýjum iðngreinum með starfsemi um allt land.
Greinin skapar ríflega fjórðung landsframleiðslu Íslands með beinum hætti og hefur hlutur iðnaðarins í verðmætasköpun hagkerfisins verið að aukast síðustu ár.
Iðnaðurinn er umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði en um 52 þúsund launþegar starfa í iðnaði eða einn af hverjum fjórum á vinnumarkaðnum.
Íslenskur iðnaður skapar um 40% útflutningstekna landsins, sem námu 750 milljörðum króna á síðasta ári. Tekjurnar eru af fjölbreyttri starfsemi iðnaðar á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar.
Samtök iðnaðarins eru af þessum sökum stærstu atvinnugreinasamtök landsins með um 1.700 félagsmenn, fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda sem starfa á fjölbreyttum sviðum iðnaðar.
Um könnun Gallup
Gallup framkvæmdi viðhorfskönnunina að beiðni Samtaka iðnaðarins dagana 20. nóvember til 3. desember 2025. Fjöldi svarenda var 809 og í úrtakinu voru 18 ára og eldri af öllu landinu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
mbl.is, 31. desember 2025.

