Fréttasafn4. júl. 2019 Almennar fréttir Framleiðsla

Á villigötum með tillögu að aukinni skattheimtu

Samtök iðnaðarins eru fylgjandi því að lýðheilsa landsmanna sé efld og Embætti landlæknis er vel treystandi til þess að stuðla að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, heilsueflingu og öflugum forvörnum í samræmi við sitt hlutverk. En embættið er á villigötum þegar það leggur til aukna skattheimtu á sykraða og sykurlausa gosdrykki auk sælgætis í því augnamiði að efla lýðheilsu. Þetta segir Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI, í grein í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni Haldlítil rök fyrir aukinni skattheimtu.  

Í greinni segir að í fyrsta lagi byggi tillagan á úreltum gögnum sem safnað hafi verið fyrir mörgum árum þegar könnun var gerð á mataræði landsmanna. Það viti það allir sem vilji vita að á síðustu árum hafi orðið breyting á neysluvenjum landsmanna. Íslenskir framleiðendur sjái þær breytingar meðal annars í sölutölum þar sem neysla á sykruðum gosdrykkjum hafi dregist saman á sama tíma og neytendur hafi snúið sér að sykurlausum gosdrykkjum en markaðshlutdeild sykurlausra gosdrykkja og kolsýrðra vatnsdrykkja nemi nú um 60%. Þær breytingar hafi átt sér stað án þess að stjórnvöld  hafi skipt sér af því með sérstakri skattlagningu. Þá segir í greininni að það standist því enga skoðun að tillögur Embættis landlæknis til stjórnvalda taki mið af því hvernig neysla hafi verið hér á landi fyrir hátt í áratug.

Jafnframt segir í greininni að í öðru lagi sé slík skattlagning flókin og íþyngjandi fyrir bæði fyrirtæki og almenning. Samtök iðnaðarins hafi ávallt barist fyrir jafnræði á markaði og að þar ríki almennar og einfaldar reglur. Þá bendir greinarhöfundur á að íslensk stjórnvöld hafi reynt hvoru tveggja, sértæka skattheimtu af stökum vöruflokkum og almenna skattlagningu á sykri í matvælum til að stýra neyslu almennings og hvorugt hafi skilað þeim árangri sem að hafi verið stefnt, einungis haft í för með sér umtalsverðan kostnað og óhagræði.

Í greininni segir að Samtök iðnaðarins telji rökin fyrir þessari auknu skattheimtu haldlítil og mótmæla þeirri aðför sem á að gera að einni tiltekinni atvinnugrein en sérstök skattlagning á einstaka vöruflokka feli í sér mismunun og skerði samkeppnisstöðu, stjórnvöld ættu frekar að horfa til þess að upplýsa og hvetja til góðrar heilsu.

Hér er hægt að lesa greinina.